136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:53]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Umræðurnar í dag hafa verið hreinskiptar og menn hafa skipst á skoðunum með málefnalegum hætti. Áherslan sem flestir þingmenn hafa lagt á nauðsyn þess að þjóðin standi saman hefur birst í ræðum þeirra sem hafa talað í dag og ég segi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að við erum líkt og síðustu daga reiðubúin til að hlusta á öll ráð og fá stuðning frá stjórnarandstöðunni.

Þetta hafa verið erfiðir tímar og sérstök ástæða er til að þakka þjóðinni fyrir einurðina sem hún hefur sýnt með því að leitast við að sýna okkur sem í þessu stöndum samstöðu. Ég vil, eins og svo margir á undan mér, þakka æðruleysið sem þjóðin hefur sýnt. Það hefur staðfest það sem við vissum áður að þjóðin hefur alltaf getað komist í gegnum erfiða tíma með því að standa saman. Eins og ég sagði áðan vil ég þakka stjórnarandstöðunni fyrir það hvernig hún hefur komið með ábyrgum hætti að málum. Sérstaklega vil ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins, fyrir traustsyfirlýsinguna sem hann gaf ríkisstjórninni áðan. Líkt og fram kom í máli hans tók hann ekki undir þá ósk, sem kom t.d. fram hjá hv. síðasta ræðumanni og formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um kosningar eða þjóðstjórn. Hv. þm. Guðni Ágústsson sagði: Þessi ríkisstjórn á að sitja. Í því hlýtur að felast sá dómur að hann telji að stjórninni takist þokkalega upp við erfiðar aðstæður.

Ég tel að ríkisstjórnin hafi gert mistök, eins og eðlilegt er við aðstæður sem þessar, en hún hefur gengið af fumleysi til verkanna sem hennar hafa beðið og notað þær stofnanir og tæki sem hún hefur átt völ á til að koma málum í sem bestan farveg. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki hikað við að fá hingað til lands með örskotshraða erlend ráðgjafarfyrirtæki sem hafa reynslu af því að sigla bönkum og þjóðum í okkar stöðu gegnum fjármálakreppur. Því álít ég ríkisstjórnina hafa brugðist við með réttum hætti við ákaflega erfiðar aðstæður. Við höfum fyrst og fremst hugsað um hag almennings í landinu, unnið að því að koma á stöðugleika í fjármálum og reynt að verja hagsmuni sparifjáreigenda. Við höfum ekki gleymt þeim sem voru með gylliboðum fengnir til að leggja — í sumum tilvikum ævisparnað sinn — í sjóði sem áttu að vera gulltryggir. Einnig höfum við unnið hörðum höndum að því með þeim ráðum sem okkur eru tæk að koma aftur á virku bankakerfi til að tryggja að hjól atvinnulífsins hætti ekki að snúast.

Síðustu daga höfum við lagt langmesta áherslu á að verja eignir og skiptir það öllu máli ef við eigum að komast með sem minnstar byrðar út úr þessum erfiðu tímum. Reynslan sýnir að við aðstæður sem þessar geta eignir rýrnað með ógnarhraða. Við höfum reynt að vinna að þessu undanfarna daga og tekist þokkalega upp, held ég, með aðstoð góðra ráðgjafa. Ég tel að í þeirri stöðu sem við Íslendingar erum núna verðum við að skoða alla kosti þegar við horfum til framtíðar.

Hjá formönnum allra þriggja stjórnarandstöðuflokkanna kom fram að þeir telja sérstaklega ámælisvert að Samfylkingin skuli nú sem áður viðra þá skoðun sína að Ísland væri betur komið innan Evrópusambandsins. Herrar mínir, Samfylkingin lætur hvorki beita sig skoðanakúgun né þöggunarstefnu. Eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði áðan á allt að vera undir og okkar skoðun er sú að við værum ekki í þessari stöðu ef við hefðum gengið í Evrópusambandið fyrr og tekið upp evruna. Við hljótum, þegar við skoðum veginn til framtíðar, að leggja viðhorf okkar inn í umræðuna og það vill svo til að meiri hluti þjóðarinnar hefur verið okkur sammála. Meiri hluti kjósenda Steingríms J. Sigfússonar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Forseti hringir.) og Framsóknarflokksins lýsa sömu skoðun í könnunum. Við þessar aðstæður verður einfaldlega allt að vera undir og við þurfum að skoða allt.