138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[10:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra og það er annað en gildir um hæstv. ríkisstjórn. Þar er mikill skortur á góðum hugmyndum, því miður. En það er rétt að halda því til haga að það voru einmitt forustumenn Sjálfstæðisflokksins sem sögðu og hafa alla tíð sagt að Ísland muni standa við þær alþjóðlegu skuldbindingar og þær alþjóðlegu skyldur sem á landinu hvíla. Það var það sem hæstv. utanríkisráðherra vitnaði til. Það eru engar nýjar fréttir.

Það sem eru nýjar fréttir og skiptir máli að menn hafi til hliðsjónar er að það hafa aldrei af hálfu þessarar ríkisstjórnar verið sett fram mótmæli við það hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hagað sér í þessu máli. Það gildir lítið þótt menn tali saman einhvers staðar undir fjögur augu. Það sem skiptir máli er að það komi skýrt fram af hálfu Íslands að við sættum okkur ekki við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komi fram með þeim hætti sem hann hefur gert.

Síðan fagna ég því að hæstv. ráðherra skuli sjá ástæðu til þess að við endurskoðum prógrammið og tek undir að það verði gert. Aðstæður hafa breyst og það er það sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram. (Forseti hringir.) Það er alveg nauðsynlegt að gera það núna vegna þess að það getur verið hættulegt að fara fram með það prógramm sem menn settu upp síðast núna í október.