141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

húsnæðismál og skuldir heimilanna.

[10:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Að undanförnu hefur velferðarnefnd fundað um skuldamál heimilanna að minni beiðni. Ástæða þess að ég bað um þessa fundi var fréttir sem gáfu til kynna áframhaldandi erfiða stöðu heimilanna í landinu. Creditinfo sagði að aldrei hefðu fleiri verið á vanskilaskrá, Íbúðalánasjóður benti á að vanskil væru að aukast hjá sjóðnum og bankarnir upplýstu að yfirdráttarlán væru aftur farin að aukast.

Á fundi okkar hafa komið fulltrúar frá Íbúðalánasjóði, umboðsmanni skuldara og velferðarráðuneytinu og hafa upplýsingar frá þeim staðfest þessar fréttir. Umsóknum hjá umboðsmanni skuldara er aftur farið að fjölga og talað er um að nú sé nýr hópur að sækja um hjá stofnuninni. Eftir því sem samningum um greiðsluaðlögun fjölgar bætast við erindi vegna lánsveða og ábyrgðarskuldbindinga. Íbúðalánasjóður talar um nýgengi vanskila auk þess sem greiðsluvilji fólks sem er að koma úr frystingu virðist minni. Ekkert er svo að frétta af aðgerðum fyrir lánsveðshópinn en þar má finna tæplega 4 þús. skuldara sem eru með lánsveð vegna lána hjá lífeyrissjóðum til kaupa á fasteign. Því hlýtur að skjóta skökku við fyrir þessi heimili að heyra stjórnvöld tala fyrst og fremst um hversu vel gengur og lítið sem ekkert um aðstoð við heimili landsins.

Nú á dögunum lögðum við framsóknarmenn fram tillögur okkar um hvernig mætti nota skattkerfið til að kom til móts við skuldsett heimili og um 4% þak á hækkun verðbóta til að tryggja að allir beri ábyrgð á baráttunni við verðbólguna, ekki bara skuldsett heimili. Engin viðbrögð hafa hins vegar komið frá stjórnvöldum, engar tillögur, ekki neitt.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvað stjórnvöld séu eiginlega að gera í skuldavandanum.