141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

lögreglulög.

173. mál
[16:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir flutning þessa máls. Hér er um að ræða frumvarp sem byggir á eldri frumvörpum sem komið hafa nokkrum sinnum til þingsins. Ég tek undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni sem talaði áðan um að málið hefði batnað að mörgu leyti frá því að það kom fram fyrst og ber að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir það. Það er greinilegt að við endurskoðun frumvarpsins í meðförum ráðuneytisins hefur verið tekið tillit til athugasemda sem hafa komið fram hér á þingi við fyrri frumvörp og athugasemda frá aðilum eins og lögreglumönnum og einstökum embættum.

Ég er sammála því sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði áðan, þetta frumvarp sem nú er á borðinu er að þokast í rétta átt og er augljóslega mun betri samkomulagsgrundvöllur og er af þeirri ástæðu líklegra til þess að ná fram að ganga en þau frumvörp sem áður hafa birst. Þetta er að færast í rétta átt.

Varðandi efnisinnihald frumvarpsins get ég sagt fyrir mig að lengi má auðvitað deila um hversu mörg lögregluumdæmin eiga að vera nákvæmlega. Mér finnst betra að sjá hér átta umdæmi en sex eins og í fyrri útgáfum, en auðvitað má hafa mismunandi skoðanir á því. Það er ekki til nein gullin tala til í því, það þarf að fara einhvern meðalveg. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um að umdæmin í dag séu of mörg en ég held engu að síður að nauðsynlegt sé að hafa allnokkur umdæmi, bara svo tekið sé mið af landfræðilegum aðstæðum í landinu. Þetta frumvarp fer að minnsta kosti miklu nær því en þær tillögur sem fyrst voru á borðinu í hæstv. ráðuneyti. Þetta er því allt saman að þokast í rétta átt.

Það er eitt atriði sem ég rek augun í sem ég vil sérstaklega nefna. Ég hef gert athugasemdir við það áður og mér finnst að hv. nefnd þurfi að skoða þetta þegar málið kemur þar til meðferðar: Hvort eiga umdæmamörk að liggja í lagatexta eða í reglugerð? Ég geri mér grein fyrir því að það er þægilegra og sveigjanlegra að hafa umdæmamörkin í reglugerð, það kostar minni breytingu að breyta umdæmamörkum. Engu að síður held ég að það sé vilji margra í þinginu að fá til umfjöllunar tillögur um breytingar á umdæmamörkum. Í sumum tilvikum, eins og við þekkjum af fyrri breytingum á þessu sviði, geta umdæmamörkin verið afar viðkvæmt mál á ákveðnum landsvæðum. Það kann að vera betra, jafnvel betra fyrir þann sem gegnir embætti innanríkisráðherra á hverjum tíma, að láta þingið taka þá ábyrgð að kveða á um það. Fyrir utan að umdæmamörkum ætti ekki að þurfa að breyta voðalega oft, það er ekki eins og menn þurfi að endurskoða umdæmamörk árlega eða eitthvað svoleiðis. Ég leyfi mér að gera athugasemdir við þetta. Þetta er ekki stórt atriði í heildarsamhenginu en ég vildi nefna það við 1. umr. svo að hv. nefnd gæti tekið þessi sjónarmið til skoðunar í málsmeðferð sinni.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég árétta það sem hefur gægst fram í umræðum í dag, þ.e. að lögreglan í landinu hefur sætt skerðingu. Við getum deilt um hversu mikil skerðingin er í samanburði við hina og þessa aðra í hinu opinbera kerfi en ég held að rétt sé að nota tækifærið til að árétta það sjónarmið, sem ég gerði raunar einnig við umræðu um fjárlög fyrir fáeinum dögum, að þarna þurfum við að bæta úr. Fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út núna kemur ekki nægilega til móts við þá fjárþörf sem augljóslega er fyrir hendi hjá stærstu lögregluembættunum og raunar víðar eins og menn þekkja af skrifum lögreglumanna og embættismanna í blöð og athugasemdum sem ég veit að þingmönnum hafa borist, bæði þingmönnum einstakra kjördæma og þingmönnum almennt.

Þetta ákall hefur heyrst á hverju ári núna. Við horfum upp á fækkun lögreglumanna og aukið álag á þá sem eftir eru. Lögreglan er í vanda þegar mannskap fækkar, færri bílum er haldið úti og fleira þess háttar. Þó að það varði ekki efni þessa máls sem slíks vildi ég leyfa mér, hæstv. forseti, að nefna þetta hérna þannig að því sjónarmiði sé haldið á lofti eins oft og kostur er.