141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

lögreglulög.

173. mál
[16:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir einstaklega góða og málefnalega umræðu. Það voru nokkrar vangaveltur settar fram og stöku spurning. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson velti því fyrir sér hvar stæðu áform sem áður hefðu verið nefnd um flutning á verkefnum frá embætti ríkislögreglustjóra til landsbyggðar. Ég verð að játa að ég þekki ekki gerla þá umræðu sem fór einhvern tíma fram um þetta efni, en ég gerði grein fyrir afstöðu minni til embættis ríkislögreglustjóra í máli mínu áðan. Það er fremur þannig að á öðrum vettvangi hafi verkefni verið flutt og það á við um sýslumennina. Verkefni á þéttbýlissvæðinu hafa verið færð til sýslumannsembætta úti á landi og það hefur gefið afar góða raun og er nokkuð sem við eigum hiklaust að halda áfram að gera.

Varðandi stóru málin sem hér hafa verið rædd vil ég taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá þeim sem hafa tjáð sig í dag. Ég held að við höfum ef til vill fundið hinn gullna veg með þessum fjölda þótt auðvitað sé engin leið endanlega og til eilífðar rétt. Það er vert að velta því fyrir sér sem kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni hvort landamæri eigi að vera í lögum eða í reglugerðum, hvort það eigi að vera meiri sveigjanleiki innan stjórnsýslunnar. Það er vert að velta því fyrir sér. Hér er gert ráð fyrir að þetta sé í lögum en landamærin séu síðan hugsanlega hreyfanleg og breytanleg, það eigi líka við um sýslumannsembættin. Þetta yrði unnið í nánu samstarfi við sveitarfélögin í landinu og tæki mið af aðstæðum eins og þær hafa þróast í seinni tíð.

Það er hárrétt sem fram kom í umræðunni, að ástæða er fyrir landsbyggðina að óttast kerfisbreytingar sem fela í sér að þungamiðjum innan stjórnsýslu fækki á landsbyggðinni, vegna þess að þá er raunveruleg hætta fyrir hendi að jaðarsvæðin verði út undan. Þetta er raunveruleg hætta sem við verðum að hafa opin augu gagnvart. Þá þurfum við líka að horfa til þess sem menn lögðu líka áherslu á í ræðum sínum, að rugla ekki saman stjórnsýslunni og miðstöðvum hennar annars vegar og starfseminni og þjónustunni við fólkið hins vegar. Það er þó alveg rétt að ástæða er til að hafa áhyggjur af því þegar klippt er á þann naflastreng og er eitthvað sem við eigum að vera mjög á tánum gagnvart.

Varðandi spurninguna um hvort rétt sé að seinka gildistökunni í ljósi þess að þetta hefur verið lengi á döfinni, þá held ég ekki. Og þá held ég að mér sé óhætt að segja að ég tali fyrir hönd stjórnenda innan löggæslunnar og kannski ekki síður — ég ætla nú ekki að taka djúpt í árinni þar, alls ekki — innan sýslumannaumhverfisins. Þar hafa menn jafnvel talað um að það gæti verið hyggilegt að flýta gildistökunni. Ég er ekki á því máli sjálfur. Ég held að svona kerfisbreytingar eigi að taka langan tíma. Við ræddum um það í sambandi við Farsýsluna hér áðan og Vegagerðina. Þar hef ég verið að reyna að flýta málum og gefa í í ljósi þess að hugmyndir um þær breytingar hafa verið á döfinni mjög lengi og haldnir hafa verið endalausir fundir með starfsmönnum og við höfum núna fengið áminningu um að fá að minnsta kosti niðurstöðu í málin. Það held ég að eigi við um þetta mál líka, það sé æskilegt að fá niðurstöðu í það eins fljótt og nokkur kostur er.

Þess vegna legg ég til að málið fari núna hið bráðasta inn til viðeigandi nefndar og fái þar góða umfjöllun. Sú nefnd tekur sér að sjálfsögðu þann tíma sem hún þarf og kallar til sögunnar fulltrúa löggæslunnar og væntanlega sveitarfélaga og aðra aðila sem eru háðir þjónustu lögreglunnar. Um þetta má hafa mörg orð enda mjög mikilvægt verkefni. Það er mjög örlagaríkt að okkur takist vel upp í skipulagi á löggæslunni á landinu og á það við um lögregluembættin ekki síður en sýslumannsembættin.