145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ræðuna og ég vil taka undir það með honum að það sé mjög mikilvægt að fara í bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum og hvað mig varðar þá er ég fyllilega sammála því grundvallaratriði. Það eru kannski hinir fínni núansar sem þarf að hafa í huga sem ég kem upp í þessu andsvari til að ræða.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í kemur svolítið í framhaldi af orðaskiptum hans og hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur hér áðan. Mér fannst það nefnilega dálítið gott sem hv. þingmaður sagði að aðgengismál lytu ekki bara að aðgengi fyrir fatlað fólk eða hreyfihamlaða heldur einnig að aðgengi fullorðins fólks eða þeirra sem eldri eru orðnir. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort þetta sé ekki atriði sem við þurfum að hafa í vaxandi mæli í huga þegar verið er að skipuleggja eða byggja íbúðir. Við sjáum fram á það að lýðfræði þjóðarinnar er að breytast, öldruðum fer fjölgandi og við höfum átt miklar umræður undanfarið um byggingu hjúkrunarheimila og kostnaðinn sem fylgir því. Ég vil því spyrja hvort það sé ekki skynsamlegt að hugsa þessi mál til enda áður en (Forseti hringir.) byrjað er að byggja og huga þá að aðgengismálum því við vitum öll að það er enn þá dýrara að breyta þegar byggðum íbúðum.