145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[15:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tel þá nálgun sem hv. þingmaður kom með á aðgengismálin gríðarlega mikilvæga. Það er nefnilega nákvæmlega þannig að aðgengið snýst ekki bara um að hafa aðgengi á eigin heimili heldur snýst það ekki síður um að geta farið í heimsókn eins og hver annar, hvort sem það er til foreldra, barna eða vina. Það vilja allir geta mætt í partí og það vilja allir geta komist á klósettið í partíinu. Þetta snýst bara um svona einfalda og hversdagslega hluti fyrir okkur sem komumst flest en sem því miður eru það ekki, líkt og kom fram í umræðunni aðeins fyrr í dag, þar sem einhver hv. þingmaður minntist á að ekki skorti óaðgengilegt húsnæði. Því miður er það bara enn þá þannig í dag að verið er að byggja húsnæði þar sem aðgengismálunum er hreinlega klúðrað á einhvern hátt. Ég held þess vegna að svo gríðarlega mikilvægt sé að við tölum um þetta og við hömrum á þessu, að alls staðar þar sem við getum þá minnum við á þetta, þá pikkum við í þetta og pössum þannig upp á að allir þeir sem koma að því að byggja eða hanna húsnæðið, hvort sem það er arkitektinn eða verkfræðingurinn eða hver það nú er, séu minntir á þetta. Það er gríðarlega nauðsynlegt að gera það og þess vegna þótti mér vænt um að heyra að ég eigi mér í þessu stóra baráttumáli mínu bandamann í formanni hv. velferðarnefndar.