149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

málefni fatlaðra barna.

[14:02]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrirspurnina og vil segja að þarna þurfum við svo sannarlega að gera breytingar. Hv. þingmaður kemur inn á að samfella í þjónustu við börn sé ekki nægilega vel tryggð og kemur bæði inn á mál sem snúa að félagsmálaráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu og raunar fleiri ráðuneytum.

Það er gríðarlega mikilvægt að við náum að gera breytingar á velferðarkerfinu til að tryggja að þeim glufum sem eru í kerfinu, sem þingmaðurinn lýsti svo vel, sé lokað og þær brúaðar.

Þess vegna er mjög ánægjulegt að í dag var fyrsti fundur hjá þverpólitískum hópi þingmanna sem ég hef falið að endurskoða alla félagslega umgjörð í málefnum barna. Sá fundur fór fram í hádeginu og hv. þingmaður á sæti í þeim hópi. Ég vænti mikils af þeirri vinnu vegna þess að við þurfum svo sannarlega að gera breytingar á velferðarkerfinu svo börn falli ekki á milli kerfa eins og hefur verið raunin. Þar á sérstaklega að horfa til snemmtækrar íhlutunar í málefnum barna sem glíma við fötlun, sem eiga foreldra sem þurfa félagslegan stuðning til ýmissa þátta. Ég vænti mikils af þeirri vinnu.

Ég tek undir með hv. þingmanni, fara þarf í aðgerðir varðandi tómstundastarf barna sem glíma við fötlun. Ég nefni m.a. verkefni sem við settum af stað með Íþróttasambandi fatlaðra fyrr á þessu ári sem miðar að því að kortleggja og koma þéttar inn þegar kemur að stuðningi við börn (Forseti hringir.) sem stunda íþróttir. Ég næ ekki að svara um börn fatlaðra foreldra og geri það í seinna svari.