149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

laxeldi í sjókvíum.

[14:15]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti Við verðum að fara varlega í uppbyggingu á fiskeldi, atvinnugrein sem er rétt á barnsfótum núna. Þessi rödd heyrist víða í umræðunni um fiskeldi. Enn fremur heyrast raddir um að við eigum að vanda okkur, læra af reynslu annarra og fara að með gát, að náttúran eigi að njóta vafans. Allt eru þetta heilræði sem ég get tekið undir.

Ég þarf ekki að fjölyrða um þann darraðardans sem hófst þegar úrskurður barst frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála á dögunum og hvaða áhrif hann hefur haft á samfélögin fyrir vestan. Þar hafa væntingar staðið til upprisu samfélaganna og uppbyggingar á atvinnulífi. 200 manns á sunnanverðum Vestfjörðum starfa beint við fiskeldi og líklega 100 við afleidd störf. Þá erum við að tala um rúmlega 400 manns þegar við teljum hverja þetta snertir. Ég ætla að láta þingheimi eftir að sjá hvað þær langþráðu væntingar sem dofnað hafa við hvern hiksta í kerfinu undanfarna daga þýða fyrir samfélögin.

Það rekur tíðum þótt róið sé öllum árum. Þegar kerfi sem við stjórnmálamenn höfum skapað hættir að virka þarf að bregðast við. Því vil ég beina máli mínu til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi starfsleyfi tveggja fiskeldisfyrirtækja sem eru með laxeldi í sjókví á Vestfjörðum. Nú er það á valdi hæstv. umhverfisráðherra að gefa út starfsleyfi til bráðabirgða til að tryggja starfsemi á meðan þessi mál eru að komast í fastan farveg.

Hyggst hæstv. umhverfisráðherra vinna að því að starfsleyfi verði gefin út til bráðabirgða? Hvenær má vænta þeirra? Og í annan stað: Hver er afstaða hæstv. umhverfisráðherra til uppbyggingar laxeldis hér á landi og hvaða umgjörð sér ráðherrann fyrir sér um þá starfsemi?