150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir yfirferð hennar á þessu frumvarpi sem ég verð að viðurkenna að ég botna eiginlega ekkert í, hvorki áður en ég sá frumvarpið né eftir að ég hef borið það augum, einfaldlega vegna þess að það kemur fram á fjórum eða fimm stöðum í frumvarpinu, held ég, að þessi lagasetning sé nauðsynleg til að hægt sé að greiða bætur, til að viðurkenna bótaskyldu og vegna sérstöðu málsins.

Í dómi Hæstaréttar frá því í september í fyrra voru þeir einstaklingar sem máttu dúsa á bak við lás og slá sýknaðir af þeim sökum sem á þá höfðu verið bornar. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki dugi að líta til laga um meðferð sakamála þar sem fjallað er um einstakling sem saklaus hefur hlotið dóm í sakamáli og hefur þolað refsingu. Þar kemur skýrt fram að viðkomandi eigi rétt á bótum. Það kemur líka skýrt fram í sömu lögum að sækja skuli bætur á hendur ríkinu, enda fer ríkið með ákæruvaldið og ber ábyrgð á óréttmætum dómum.

Maður spyr: Af hverju er verið að leggja þetta mál fram? Af hverju er látið eins og um nauðsynlega lagasetningu sé að ræða? Ég átta mig alls ekki á því og óska eftir svari frá hæstv. forsætisráðherra.