150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:51]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það kemur fyrir að ég get tekið undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Það gerist að vísu ekki oft og það var raunverulega bara ein setning í ræðu hennar sem ég get tekið undir. (Gripið fram í: Þó ein.) Já, af langri ræðu var það samt bara ein setning. Ég er mjög hugsi yfir tilganginum með þessu frumvarpi og þegar maður les greinargerðina með því virðist tilgangurinn fyrst og fremst vera sá að sýna fram á vilja stjórnvalda og löggjafans til að greiða hinum sýknuðu og aðstandendum þeirra sanngjarnar bætur. Ég velti þessu upp vegna þess að ég hef fylgst talsvert með því sem lögmenn sumra hinna sýknuðu manna af þessum ákæruliðum hafa talað um. Af þeim orðum má skilja að þeir telji þetta frumvarp ekki nauðsynlegt. Þeir hafa litið svo á, einn þeirra sagði það opinberlega, að núverandi löggjöf taki til bótaréttar þeirra og aðstandenda eins og sú löggjöf er nú. Með hliðsjón af því er mjög erfitt fyrir mig að skilja þetta.

Ég tel sjálfur að þetta mál sé mjög hættulegt fordæmi. Ég man þá tíð, af því að ég er nú eldri en flestir hér í salnum, örugglega eldri en allir nema hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, að þegar þeir sem höfðu verið ranglega sakaðir í þessu máli sóttu bætur, af þeim sem við ætlum að greiða bætur núna, voru viðbrögð stjórnvalda á þann veg að það mál væri algerlega einstakt og því væri ekki rétt að stjórnmálamenn, stjórnvöld eða pólitíkin, tækju ákvörðun um þær bætur. Það voru sérstök rök hjá þáverandi fjármálaráðherra, sem mig minnir að hafi verið Matthías Á. Mathiesen, og þau mál enduðu öll fyrir dómi. Ég tel rétt að dómstólar skeri úr um þetta. Þá er ég ekki að tala um það, úr því að málið er komið í þennan farveg og var afgreitt með þessum hætti, að dómstólar skeri úr um þetta þó að við viðurkennum bótaskyldu. Hér er krafan um bætur langt umfram það sem nokkurn tímann hefur þekkst. Ég get bent á það að ef 18 ára unglingur verður fyrir árás eða slysi og verður lamaður frá hálsi, óstarfhæfur alla ævi, þ.e. 100% varanleg örorka, 100% miski, gæti hann í besta falli gert sér vonir um að fá í kringum 70 milljónir. Hér eru menn jafnvel að tala um 200 til 300 milljónir fyrir einstaka aðila þessa máls.

Ég held að við séum komin langt út fyrir mörk hvað varðar valdið sem við tökum okkur, vald sem mér finnst eiga heima hjá dómstólum. Þetta mál hefur í raun allt verið tekið frá dómstólum. Það var pólitísk ákvörðun á sínum tíma að búa til endurupptökunefnd. Endurupptökunefnd er stjórnvald í þeim skilningi og það stjórnvald ákveður að taka þetta mál upp. Síðan er skipaður sérstakur ríkissaksóknari til þess að fara með málið og hann krefst síðan sýknu, sem gerir það að verkum að dómstóllinn er bundinn við þá niðurstöðu og getur ekki tekið afstöðu til sakarefnisins. Þetta er allt tekið frá dómsvaldinu sem á heima hjá dómstólunum og ég geri sérstaka athugasemd við slíka málsmeðferð yfir höfuð og finnst hún óeðlileg.

Þegar maður veltir fyrir sér niðurstöðu endurupptökunefndar þá er hún þannig að hún telur að framburður þessara aðila þar sem játning kemur fram sé óáreiðanlegur. Mér finnst merkilegt að menn komi hér næstum hálfri öld síðar, 45 árum síðar, og segi að dómarar sem hlustuðu á umræddar játningar og báru þær saman innbyrðis, báru þær saman við önnur gögn, hafi ekki haft rétt fyrir sér og svo kemur stjórnsýslunefnd og ákveður eitthvað annað. Þetta er algjört einsdæmi og þekkist örugglega hvergi í réttarríkjum, af því að við erum að tala um réttarríkið hér, sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson taldi að hefði brugðist af því að við stjórnmálamenn teljum það. Þetta er algjörlega með ólíkindum og ég lít á alla þessa málsmeðferð sem aðför að dómsvaldinu í landinu, hvað sem okkur kann að finnast um það. Það er ekki alltaf sem maður er sammála niðurstöðu dómstóla en það er fráleitt að stjórnmálamenn séu almennt á þeirri vegferð að taka fram fyrir hendur á þeim, ákveði að taka upp mál og ákveði að krefjast sýknu og komi svo og ákveði að greiða bætur umfram allt sem lög gera ráð fyrir og hafa hingað til gert ráð fyrir.

Þessi málsmeðferð er fullkomið hneyksli að mínu viti. Það er ekki það að ég sé alltaf sammála dómstólum. Stundum finnst mér dómar algerlega fráleitir. En mér hefur aldrei dottið í hug að leggja fram frumvarp til að fara gegn þeim, aldrei dottið það í hug og mun aldrei detta það í hug. Ég mun aldrei standa að slíku á meðan ég er hér á þinginu. Aldrei.

Ég verð líka að gera athugasemd við það hve menn hafa verið, bæði hér í salnum og í almennri umræðu í samfélaginu, stóryrtir um þetta mál. Ég er algerlega fullviss um að þeir sem hafa verið verstir hvað það varðar hafa hvorki kynnt sér málið í þaula né nokkurn tímann haft aðgang að gögnum þess og vita ekkert um hvað þeir eru að tala. Ég ætla ekki að fara að ræða efnislega um málið en ég get þó sagt að það sem truflar mig við þetta mál og löggjöfina á þeim tíma, sem tók heilmikla baráttu margra lögmanna að berjast gegn, var þessi víðtæka heimild til að halda mönnum í gæsluvarðhaldi, í einangrun. Sú barátta stóð alveg til 2008. Margir verjendur geta örugglega sagt ykkur sögur af því að þeir voru með sakborninga í haldi mánuðum saman, fjóra mánuði, fimm mánuði, jafnvel meðan lögreglan var að leita að fíkniefnum sem þeir voru grunaðir um að flytja inn, sem fundust aldrei. Þetta var bara veruleiki þess tíma. Oft var það þannig að gæsluvarðhaldið varð lengra en efni stóðu til vegna ástands sem varðaði sakborninga sjálfa. Það kann að einhverju leyti að hafa átt við í því máli sem við ræðum hér.

Það er líka mikill misskilningur, sem verið hefur í almennri umræðu, að sakborningar hafi játað aðild að hvarfi eða láti þessara manna eftir langvarandi einangrunarvist. Það var ekki þannig, það var eftir mjög stutta einangrunarvist. Menn komu líka með þessa játningu fyrir dómara að verjendum viðstöddum. Það veit það kannski enginn í þessum sal, ég veit það ekki. En þannig var það. Ég er ekki að halda því fram, ekki bara í þessu máli frekar en mörgum öðrum, að ekki gæti hafa verið skynsamlegur vafi á þessari sekt. Aldrei fundust líkin. En sönnunarfærslan byggðist á þessum játningum, innbyrðissamræmi þeirra, hvort þær stæðust samanburð við önnur gögn og hvort þau væru trúverðug þegar þau sögðu frá. Þannig er fjöldinn allur af dómsmálum og þannig hefur fjöldi manna verið sakfelldur, mikill fjöldi, á játningum, jafnvel þó að fíkniefni fyndust aldrei, af því að stoð fékkst í framburði annarra og stoð í öðrum gögnum. Það eru engin nýmæli.

Það er eitt að lokum sem hefur truflað mig við þetta mál og málsmeðferðina, það er ekki bara að krefjast sýknu heldur að krefjast ekki endurákvörðunar refsinga vegna þess að þessi sakfelling, hættuleg líkamsárás sem leiddi til bana, var bara einn hluti af ákvörðun refsingar. Ég hefði viljað fá að vita hve stór hluti það var en dómstólum var ekki einu sinni gefinn kostur á því. Endurákvörðunar var ekki krafist vegna þess að allir þeir sakborningar sem hér um ræðir voru sakfelldir fyrir önnur atriði, alvarleg atriði, mjög alvarleg, sem var hluti af heildarrefsingunni. Með hliðsjón af því tel ég enn mikilvægara að dómstólar ákvarði bæturnar en ekki við stjórnmálamenn.

Ég get ekki stutt þetta frumvarp, hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að ég er ósáttur við þessa meðferð alla, ósáttur við það sem ríkið hefur boðið vegna þess að það er í engu samræmi við gildandi rétt í landinu. Við stjórnmálamenn getum ekki leyft okkur, ekki í mínum huga, að fara svona með skattfé eins og hugsunin er að gera. Sama hve óréttlátt okkur finnst málið, sama hvað okkur finnst um málið, getum við ekki leyft okkur það. Ég get sagt það, þótt það valdi kannski einhverjum usla hér í salnum, af því að menn eru að tala um að bæta fleirum inn í þetta mál: Ég skal hugsanlega styðja þetta ef þeir fá að vera með hér sem voru ranglega sakaðir í málinu.