Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Fyrir tæpum hálfum mánuði var því fagnað á Norðurlandi þegar Hólasandslína 3 var tekin í notkun, einu ári eftir að Kröflulína 3 var spennusett. Hér var um stórt skref að ræða í því að efla orkuöryggi á Norðurlandi og þá sérstaklega í Eyjafirði. Þessar tvær línur eru síðan áfangar í því að styrkja uppbyggingu nýrrar byggðalínu sem tengir saman allt landið. Þessar tvær nýju línur, Kröflulína 3 og Hólasandslína 3, hafa strax sannað það á þessu hausti, í þeim óveðrum sem hafa gengið yfir norðan- og austanvert landið, hversu mikilvægt var að fara í að leggja þær og koma í veg fyrir rafmagnsleysi eða stytta rafmagnsleysi á stórum landsvæðum.

Næsta skref í endurnýjun byggðalínunnar er Blöndulína 3 sem er milli Akureyrar og Blönduvirkjunar og síðan er nauðsynlegt að halda áfram alla leið suður í Hvalfjörð og út á Reykjanestá. Ef markmið í loftslagsmálum eiga að nást, markmið um kolefnishlutleysi Íslands, ekki síðar en árið 2040 og önnur markmið sem eru nær okkur í tíma, þá er nauðsynlegt að slík markmið muni ekki nást nema með uppbyggingu nýrrar, öflugrar byggðalínu og því að tengja helstu orkuvinnslusvæðin á suður- og norðurhluta landsins saman, þannig að við nýtum betur okkar endurnýjanlegu orku og forðumst sóun.

Það er eðli raforkukerfa sem treysta á endurnýjanlega orku að til staðar séu öflug flutningskerfi raforku til að hámarka nýtingu þeirrar grænu orku. Í núverandi kerfisáætlun Landsnets er gert ráð fyrir að framkvæmdum við nýja byggðalínu ljúki árið 2032. Miðað við hvernig hefur gengið að leggja nýja byggðalínu hringinn í kringum landið á undanförnum árum þá er hið eina rétta í stöðunni að fara í átaksverkefni og flýta eins og mögulegt er að leggja nýja byggðalínu.

Forseti. Hér er um algjört forgangsmál að ræða.