Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við þurfum að tala um stöðuna í heilbrigðismálum á Íslandi. Í þessum töluðu orðum eru hátt í 400 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými, m.a. fólk sem er of veikt til að geta beðið heima hjá sér og liggur frammi á göngunum á Landspítalanum. Það eru þúsundir á biðlista eftir læknisaðgerðum hjá spítalanum, rúmanýting er langt umfram það sem gengur og gerist í okkar heimshluta og staðan á heilsugæslustöðvunum er þannig að einhverjar þeirra eru beinlínis hættar að taka við tímabókunum til heimilislæknis því að starfsfólk vantar. Starfsfólk hvarvetna í heilbrigðiskerfinu er undir ómanneskjulegu álagi og samkvæmt könnunum hafa 70% hjúkrunarfræðinga íhugað alvarlega að hætta störfum síðustu tvö árin. Þetta er staðan og hún fer ekki fram hjá neinum.

Spurningin er þá: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við? Hvert er planið hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur? Hvað varð um heilbrigðisráðherra? Ætla þau að ráðast í stórátak til að gera eftirsóknarvert að starfa við heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Þess sjást engin merki enn þá. Ætla þau að setja sér metnaðarfull markmið um að fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimaþjónustu? Nei. Hin raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar birtist í fjárlögum og fjármálaáætlun. Og hvað sjáum við þar? Jú, þar sjáum við að stjórnarmeirihlutinn, meiri hluti Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, ætlar að skera niður framlög til reksturs sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Annað árið í röð munu rekstrarframlög til heilbrigðisþjónustu dragast saman að raunvirði. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, að halda grunnþjónustu í fjársvelti. Sjúklingar eiga betra skilið, heilbrigðisstarfsfólk á betra skilið og fólkið í landinu á betra skilið. Við verðum að sameinast um að gera betur.