Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Undanfarið hefur umræða um geðheilbrigðismál orðið umfangsmeiri í samfélaginu. Ákall eftir auknu aðgengi að faglegri þjónustu er mikið. Í því samhengi er mikilvægt að efla samstarf milli geðheilbrigðiskerfisins og lögreglunnar eins og hefur þegar gefist vel víðs vegar um heiminn. Árið 1978 hóf lögreglan í Bresku Kólumbíu í Kanada samstarf við hjúkrunarfræðinga í útköllum vegna geðræns vanda. Síðan þá hefur samstarf lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks verið ein af grunnstoðum útkallsþjónustu fylkisins. Frá árinu 1989 hefur svokallað almannaöryggisteymi, kallað Cahoot, verið starfrækt í Oregon-fylki Bandaríkjanna og önnur teymi víðs vegar um Bandaríkin hafa verið stofnsett í kjölfarið. Verkefni teyma eru margvísleg en lögreglan kemur bara við sögu ef útkallið varðar ofbeldisfullan einstakling. Reynslan sýnir skýrt að aðeins í örfáum tilfellum þarf að kalla á aðstoð lögreglu. Í Svíþjóð hefur til að mynda verið komið á fót sérstökum geðheilbrigðissjúkrabíl sem hefur starfað frá árinu 2015.

Píratar vilja koma á fót neyðargeðheilbrigðisteymi og tryggja því fjármögnun. Teymið yrði skipað heilbrigðisstarfsfólki með sérþekkingu á sviði geðheilbrigðis, vímuefnavanda og skaðaminnkunar og það myndi sinna neyðarútköllum í tilvikum þar sem einstaklingar á vettvangi eiga við geðrænan vanda eða vímuefnavanda að stríða. Á sama tíma myndi teymið valdefla viðbragðsaðila hjá Neyðarlínunni og lögreglu með fræðslu svo þau geti metið hvenær þörf sé á aðstoð frá geðheilbrigðisstarfsfólki í útköllum. Þegar þessir hópar vinna vel saman bætir það lífsgæði allra; fólk með geðsjúkdóma á auðveldara með að fá geðheilbrigðisþjónustu, lögreglan upplifir færri áföll og minni streitu í starfi, geðheilbrigðisstarfsmenn fá tækifæri til að hafa enn meiri, bein og jákvæð áhrif á samfélagið. (Forseti hringir.) Við óskum eftir meðflutningsfólki úr öllum flokkum og því vil ég hvetja þingheim til að kynna sér umrædda þingsályktunartillögu.