Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Neyðarástand snýst um forgangsröðun, að forgangsraða í þágu þess tilefnis sem neyðarástandið býður upp á. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins.“

Mér finnst áhugavert að þar sé notað orðið loftslagsvá sem er ansi skylt því að vera í rauninni í neyð. Kannski er það hræðsla við þetta orð, ég átta mig eiginlega ekki alveg á því. Kannski hagar ríkisstjórnin sér eins og um neyðarástand sé að ræða en án þess að segja það berum orðum. Hvernig mál Bjarkar og Gretu Thunberg fór inn í ríkisstjórn frá forsætisráðherra ber það alla vega með sér.

Áttum okkur aðeins á því hvað er verið að gera. Ríkisstjórnin setur sér markmið í stjórnarsáttmála um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, í því sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Þetta er pínu flókið kerfi. Stjórnvöld bera ábyrgð á ákveðnum hluta og sá hluti á að dragast saman um 55%. Þetta er uppfærð áætlun. Það er það mikið neyðarástand að í Evrópu er búið að uppfæra samdráttinn úr 40% í 55%. Það þarf sem sagt að gera þetta miklu meira til að halda sig innan skilmála Parísarsamningsins. Í fyrra fyrirkomulagi hjá samstarfsaðilunum, Evrópusambandinu og Noregi, var samdrátturinn 40% og hlutdeild Íslands var 29%. Ísland þurfti ekki að ná 40% samdrætti, bara 29% samdrætti. Loftslagsáætlunin sem við erum með núna miðar einmitt að þessum 29% samdrætti. Það vantaði aðeins upp á fjármögnun á því og að klára útfærslur en alla vega sjáum við núna fram á, samkvæmt þeim gestum sem komu fyrir fjárlaganefnd, að við munum skila því að ná um 28% samdrætti. Það er aðeins innan vikmarka en alla vega nokkurn veginn þessi 29%. Þá taka við ný og uppfærð markmið um 55% en ekki 40%. Hver hlutdeild Íslands verður í markmiðinu um 55% samdrátt í losun vitum við ekki. Við getum giskað á að þar sem hlutdeild Íslands var um þrír fjórðu af 40% markmiðinu sé það enn þá um þrír fjórðu af 55% markmiðinu. Kannski förum við upp í einhver 40% sem við þurfum þá að ná núna. Við þurfum að auka samdrátt í losun um rúm 10% eða svo, upp í um 40% af þessum sameiginlega markaði. En, og dálítið stórt en, ríkisstjórnin bætir um betur og segir að markmið ríkisstjórnarinnar sé að ná 55% sjálfstæðu markmiði um samdrátt í losun, þ.e. óháð því hver hlutdeild okkar verður í sameiginlega markmiðinu með Evrópusambandinu og Noregi. Þó að það verði 40% þá: Nei, við ætlum samt að gera betur og ætlum að ná 55%. Frábært. Það eru eðlileg viðbrögð myndi maður segja við því ástandi sem er einmitt kallað loftslagsvá í stjórnarsáttmálanum. En, og hérna er alveg risastórt en, það er ekkert sem ber þess merki að verið sé að gera neitt í því í fjárlögum eða fjármálaáætlun.

Í morgun komu Samtök aðila í ferðaþjónustu til fjárlaganefndar og bentu okkur á að einungis um 4,1% af heildarfjölda bílaleigubíla er rafbílar en fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að 20% bílaleigubíla verði vistvænir árið 2025 sem er alls ekki að fara að nást, segja þau. Það er hins vegar búið að uppfæra þessi markmið í nýrri fjármálaáætlun þannig að árið 2023, á næsta ári, á helmingur bílaleigubíla að vera vistvænn. Helmingur á næsta ári. Það kostar rosalega mikinn pening. Það kostar þessar meðgreiðslur sem er búið að vera að borga með tvinnbílum og öllu því og á að fara að fella niður. Hvernig bílaleigurnar eiga að fara úr þessum 20% sem átti að ná fyrir 2025 í 50% á næsta ári er bara rosalega stór spurning. Tóm orð að því er virðist en ekki alvöru raunhæfar aðgerðir.

Það sem neyðarástand snýst um er að gera eins og segir í þessari þingsályktun:

„Ríkisstjórnin setji sér skýr, metnaðarfull og tímasett markmið …“

Þetta er það sem vantar alveg. Það sem er fjallað um í fjármálaáætlun er að á árinu 2030 verði kominn 55% samdráttur en það eru engar upplýsingar um hverjar eru vörðurnar á leiðinni.

Það er svo margt hérna sem maður bara áttar sig ekki alveg á. Þetta 55% losunarhlutfall sem er hvergi í mælikvörðum stjórnvalda er á nokkrum stöðum en ekki 55% hlutfallið. Það er t.d. talað um að á málefnasviði nýsköpunar eigi að minnka losun úr 2.965 kílótonnum niður í minna en 2.700, sem sagt 10% samdráttur, og markmiðið á að vera komið í 10% samdrátt þremur árum áður en við eigum að vera búin að ná 55% samdrætti. Við erum í þeirri stöðu að losun frá samgöngum á að minnka úr 1.034 kílótonnum niður í minna en 700, sem er vissulega 33% samdráttur en bara helmingur af því sem þarf að vera búið að ná þremur árum seinna því að það hækkaði aðeins frá 2005 sem er viðmiðunarárið. Þegar allt kemur til alls fór samdrátturinn upp í það að vera 65% miðað við það sem hæst var.

Þetta er allt svona. Þrátt fyrir þessar fögru yfirlýsingar og stóru orð um að það sé loftslagsvá vantar einmitt allt sem maður gerir þegar vá er fyrir höndum. Þegar við glímum við neyðarástand þarf að gera það sem stendur í þessari þingsályktunartillögu, það sem ég las áðan. Líka að allar áætlanir og aðgerðir hins opinbera, sem og skipulag stjórnsýslu, miði að því að styðja við markmið í loftslagsmálum og að þau verði loftslagsmetin, að nægilegt fjármagn verði tryggt, að gagnsæið verði tryggt líka, það sé raunverulegt og reglulegt samtal um þetta og öll markmið tengd loftslagsmálum verði endurmetin reglulega og af auknum metnaði.

Við höfum bara sjö ár til stefnu. Hvað erum við að tala um? 2023, 2024, 2025, 2026, 2027, 2028, 2029 — sjö ár. Þetta verður að vera komið fyrir 2030. Og við vitum í rauninni ekki hvaða árangri við eigum að vera búin að ná eftir tvö ár. Þetta er risastóri gallinn sem við sjáum við markmið ríkisstjórnarinnar. Það er bara máluð upp einhver dagsetning sem er eftir kjörtímabilið og einhvern veginn er engin ábyrgð tekin á því að slá þessu upp. Ríkisstjórnin tekur enga ábyrgð á því að segja: Jú, vissulega er þetta dagsetning sem nær lengra en kjörtímabilið en við ætlum a.m.k. að setja það markmið og þær vörður á leiðinni að við getum sýnt fram á það við lok kjörtímabilsins að við náðum þó að komast í rétta átt þannig að ef önnur stjórnvöld taka við eftir það og halda sama dampi þá nái þau þessum markmiðum, 55% samdrætti. En við höfum ekkert svoleiðis í höndunum og þegar maður hefur ekkert svoleiðis í höndunum fimm árum eftir að þetta átti að vera stórt markmið þá verður maður að hætta að trúa. Maður hættir að trúa þegar það er kallað „úlfur, úlfur“ of oft.