Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:15]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað í ræðustól til að fagna framlagningu þessarar tillögu um að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Eins og fram hefur komið í máli fyrsta flutningsmanns, hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar, þá er þessi tillaga til þess gerð að skerpa fókus, forgangsraða og gera það að verkum að stjórnvöld axli þá ábyrgð að grípa til raunverulegra aðgerða í baráttunni við hamfarahlýnun. Það er auðvitað þannig, og um það hefur verið fjallað hér í þessari umræðu, að það er svo sem hægt að lýsa ýmsu yfir og við höfum nærtæk dæmi um ríkisstjórnir og þing sem hafa lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum en síðan ekki gert neitt. Ætli Bretland sé ekki nærtækasta dæmið um það. Það er hins vegar von okkar sem flytjum þetta mál ásamt fyrsta flutningsmanni að með því að setja það á dagskrá hér og ræða á hinu háa Alþingi og vonandi afgreiða og samþykkja þá náum við þverpólitísku samkomulagi um að ekki bara lýsa yfir neyðarástandi, af því að ég held að það fari enginn í grafgötur um að það er fyrir löngu skollin á mikil neyð í heiminum vegna hamfarahlýnunar, heldur náum við einnig pólitískri samstöðu um þau verkefni sem nauðsynlega þarf að ráðast í. Þá á það að vera þannig að í raun sé það á ábyrgð allra stjórnmálaflokka að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru.

Ég ætla ekki að verja miklum tíma af þessari ræðu í að fara yfir stöðuna í málaflokknum núna á Íslandi. Hún hefur verið reifuð hér og algerlega ljóst að aðgerðaáætlunin sem er í gildi í dag er orðin gömul og úrelt og var það fyrir löngu. Við þurfum í raun nýja stefnu í opinberum fjármálum sem er í takt við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þetta varðar bæði ríkisfjármálin og auðvitað sveitarfélögin. Þar þurfa stjórnmálamenn að ganga í takt og setja sér sameiginleg markmið og allar opinberar fjárfestingar hér á landi eiga að hafa það að meginmarkmiði að vera loftslagsvænar og helst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef við tökum bara Ísland og þau verkefni sem varða okkur í nærumhverfinu þá er ekki mikill vandi fyrir íslenskt hagkerfi og íslenskt samfélag að draga róttækt úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fyrir 2030 og 2040. Það er í rauninni miklu léttara fyrir okkur en flest önnur samfélög á jörðinni og eiginlega öll önnur aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og þess heldur er það eiginlega óskiljanlegt hversu illa hefur gengið að koma þessum áríðandi málum og þessum mikilvægu aðgerðum á rétta teina og í hraðferð í stjórnkerfinu vegna þess að við þurfum ekki að kvarta neitt sérstaklega mikið yfir þyngd verkefnanna hér á landi, þau eru miklu þyngri í öðrum löndum.

Annað sem mig langar að koma hér að, frú forseti, er að ólíkt öllum öðrum hamförum, náttúruhamförum sem við tölum um eða lendum í, þá eru þessar hamfarir auðvitað, eins og við vitum, af mannavöldum og meira en það. Það hefur verið sagt fyrir um allt sem nú er að gerast. Þetta eru einu hamfarirnar í mannkynssögunni sem búið er að spá fyrir um nákvæmlega. Það er hægt að lesa það út úr töflum í skýrslum vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hvað gerist við hlýnun um 1°C? Hvað gerist við 1,5°C? Hvað gerist við 2°C? Hvert erum við komin ef hlýnunin fer yfir 3°C? Því miður bendir margt til þess að hún geri það á þessari öld fyrr en seinna. Og hvað gerist ef við förum yfir 4°C eða þeim mun hærra sem í rauninni eru ragnarök fyrir mannkyn þó að jörðin standi eftir? Það er eiginlega sérstakt rannsóknarefni hvernig það má vera að staðreyndir fengnar með vísindalegum rannsóknum og bestu spálíkönum sem völ er á og hafa legið fyrir í a.m.k. 15 ár hafi í raun ekki sett af stað þær kerfisbreytingar sem við erum núna að kalla eftir. Við erum að biðja um að lýst sé yfir neyðarástandi þannig að við förum í kerfisbreytingarnar, hættum baunatínslunni, eins og ég hef leyft mér að orða það. Tími þess að ábyrgðinni sé allri varpað á einstaklinga er liðinn. Við getum öll hér inni keypt okkur nýjan rafmagnsbíl á morgun. Það hafa reyndar ekki allir efni á því. En þetta snýst um kerfisbreytingarnar, atvinnuhætti, framleiðsluhætti, samgöngur o.s.frv. og við verðum að fara í þær.

Og að lokum langar mig, frú forseti, að nota tækifærið hér við fyrri umræðu um þessa tillögu að minna á að við á norðurhveli jarðar finnum minnst fyrir þessum breytingum en við finnum þó fyrir áhrifum hamfarahlýnunar. Fólkið sem lendir verst í því býr á suðurhveli jarðar, langflest, og á það reyndar líka sameiginlegt að tilheyra fátækustu ríkjum jarðar. Það er vel við hæfi að Pakistan hafi tekið við G-77 í upphafi þessa árs og muni fara fyrir hópi G-77, sem er í rauninni hópur landa sem einu sinni voru kölluð þróunarlönd innan Sameinuðu þjóða kerfisins, á fundinum sem haldinn verður í Egyptalandi næsta mánuði, COP27 líklega. Við munum væntanlega öll hvað gerðist nýlega í Pakistan. Þriðjungur landsins var undir vatni eftir monsúnrigningar sem urðu þrisvar eða fjórum sinnum meiri vegna breytinga í veðurfari en áður hefur verið. Þar höfum við dæmi sem er nærtækt núna og mun örugglega hafa áhrif á samtalið sem mun fara fram í Egyptalandi á fundi aðildarríkja loftslagssamningsins en þessi ríki bera ekki ábyrgð á hlýnuninni nema að mjög litlu leyti. Hlýnunin er vegna losunar gróðurhúsalofttegunda sem er söguleg, nær 250 ár aftur í tímann og er á sérstaka ábyrgð iðnveldanna og Vesturlandanna. Það er ekki skrýtið í þessu samhengi að hin fátækari lönd ræði af fullri alvöru um loftslagsskuld ríku landanna. Á ensku tölum við um „climate justice“, sem er algert kjarnaatriði í þessu samtali, og við verðum að fara að taka alvarlega kostnað þessara landa, ekki bara við aðlögun heldur líka við baráttuna gegn hamfarahlýnun. Þessi lönd munu ekki ein geta staðið straum af þeim kostnaði og við verðum að taka þátt í honum. Hann er okkar kostnaður líka. Hann er á okkar ábyrgð og okkur ber siðferðileg skylda til þess að létta undir með löndum sem finna verr fyrir áhrifum hamfarahlýnunar. Pakistan er eitt dæmi, ég gæti nefnt fjöldamörg önnur lönd og ég á von á því að þessi atriði verði í brennidepli í Egyptalandi í næsta mánuði. Ég vona að íslenska sendinefndin og íslensk stjórnvöld verði þar í þeim hópi sem talar fyrir því að létta undir með fátækustu ríkjum jarðar því við vitum hvað gerist ef þeim verður ekki hjálpað þegar þau fá ekki aðstoð við þessa glímu.