Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:30]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir að leggja fram þetta mál. Ég er bæði glöð og stolt af því að vera meðflutningsmaður hans á þessu máli. Mér finnst kjarnaelementið í þessu máli vera rakið ágætlega og gerð góð skil í greinargerð tillögunnar um að hér séu þingmenn, vonandi sem flestir, að sýna í verki að hlustað sé á það sem við blasir, það sem vísindin hafa sagt okkur í langan tíma og að það verði vonandi til þess að ríkisstjórnin fari í það að tala minna og gera meira, fara í þær aðgerðir sem blasir við að séu nauðsynlegar í baráttunni við loftslagsvána.

Sérfræðingar og vísindafólk hafa lýst því yfir hvert ástandið er og þar er réttilega talað um neyðarástand. Þess vegna verðum við að haga aðgerðum stjórnvalda í samræmi við það. Mér hefur reyndar fundist sérstakt hversu mikill þungi og púður hefur farið í orðanotkunina af hálfu þeirra sem gagnrýna þetta, hvort eigi að tala um vá eða neyð. Mér finnst með því verið að hlaupa frá því sem máli skiptir, það blasir ákveðin staða við sem krefst aðgerða en ekki umfjöllunar um það hvaða orð eigi að nota til að lýsa stöðunni.

Ég vildi kannski aðeins tala út frá því að hér blasir við okkur augljóslega mikil og alvarleg ógn, ógn fyrir þau sem yngri eru í samfélaginu okkar og um heim allan, en hér eru líka tækifæri. Hér eru líka tækifæri fyrir Ísland og þegar maður horfir á ógnina annars vegar og tækifærin hins vegar verð ég að viðurkenna að það þykknar aðeins í mér við tilhugsunina um það að gjáin í ríkisstjórnarsamstarfinu er helsta ástæða þess hversu illa tímanum hefur verið varið. Ef einhvern tímann mætti tala um að tímanum sé eytt og sólundað þá held ég að það megi segja að það sé að gerast í þessum málaflokki. Við sjáum þetta gerast eftir því sem umræðunni vindur fram og eftir því sem aðgerðirnar verða augljósari, þ.e. hvaða skref þarf að stíga. Síðustu dæmin voru bara hér inni í þessum þingsal í síðustu viku, að mig minnir, þar sem ríkisstjórnarflokkarnir tókust á mjög berum orðum um orkuskipti, orkuskipti í þágu loftslagsmarkmiða; nýjasta dæmið um að ríkisstjórninni er fyrirmunað að ganga í takt í þessum efnum. Manni finnst einhvern veginn vanta upp á skilning á því að hluti af því að ætla að fara í aðgerðir í þágu tiltekinna markmiða er einfaldlega að geta tekið ákvarðanir. Það virðist einhvern veginn sem það sé gegnumgangandi stærsta hindrun þessarar ríkisstjórnar, hræðslan eða tregðan við að taka ákvarðanirnar.

Ef ég set mig í smá spámannssæti þá held ég að ákvarðanir, hverjar svo sem þær verða í þessum málaflokki — að enginn einn málaflokkur geti ógnað lífi þessarar ríkisstjórnar meira en ákvarðanataka í þessum málaflokki. Hér er ágreiningurinn svo djúpstæður að allar hreyfingar geta orðið ríkisstjórninni hættulegar. Það er um leið ástæða þess að ákvarðanirnar eru ekki teknar því að þessi ríkisstjórn er í pólitískum biðflokki. Það er ekkert sem einkennir störf hennar frekar í þessum málaflokki en biðin sjálf, biðflokkur um allar þær ákvarðanir sem máli skipta.

Mig langaði að nefna þetta í samhengi við það að ríkisstjórnin talar stundum með þeim hætti að hún sé ný þegar reyndin er sú að það er á fimmta ár liðið frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum. Allan þann tíma hefur hæstv. forsætisráðherra talað með þeim hætti að Ísland sé forysturíki í loftslagsmálum en að fimm árum liðnum, þegar við rýnum afraksturinn, og þetta er rakið ágætlega í góðri greinargerð þessa máls, sést svart á hvítu að aðgerðirnar eru einfaldlega ófullnægjandi. Skýrast fannst mér það einmitt birtast í áliti loftslagsráðs í sumar þar sem loftslagsráð talaði hreint og skýrt mál um það hvað upp á vantar. Það er að íslensk stjórnvöld framfylgi, og framfylgi af mun meiri festu, þeim ákvörðunum sem þó hafa verið teknar og fari í að hraða stefnubreytingum og aðgerðum í loftslagsmálum. Þar segir jafnframt að markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 séu óljós og ófullnægjandi. Þegar svo er geta aðgerðirnar aldrei orðið annað en hið sama. Þess vegna sé nauðsynlegt að stjórnvöld skýri og útfæri markmiðin nánar.

Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart hversu harðort og hversu skýrt þetta álit var þegar ég las það fyrst í sumar. En þegar maður les stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá verð ég samt að segja ríkisstjórninni þar til hróss að þar eru vissulega sett fram markmið og við fyrsta lestur virðast markmiðin nokkuð góð. En þegar maður rýnir þau svo aftur sést að þessi gagnrýni er réttmæt. Markmiðin eru þarna en þau eru óljós og þau eru líka ófullnægjandi. En það sem verra er, við höfum síðan stjórnarsáttmálinn birtist ekki séð neinar konkret aðgerðir sem spegla það að markmiðin séu í reynd metnaðarfull. Það er stórkostlega mikið áhyggjuefni í ljósi þess að hér er um að ræða eina stærstu áskorun mannkynsins og aðkallandi að teknar séu ákvarðanir og að þær séu teknar í samræmi við alvöru málsins og það sé gert fljótt og vel, því að ég er sammála því sem segir í greinargerð framsögumanns málsins, Ísland hefur burði til að vera í forystusveit ríkja sem berjast af alvöru gegn þessum breytingum með framsæknum og réttlátum aðgerðum. Hér felast tækifæri, tækifæri í þessari stöðu sem við okkur blasir. En enn sem komið er hefur mér fundist ríkisstjórnin verja tíma sínum og um leið okkar allra óskaplega illa. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég bind vonir við það að hér sé að verða vonandi einhver breyting þó að teiknin blasi ekki alveg við okkur.

Ég vildi að lokum segja að ég tek heils hugar undir og styð það að fara í þessa sex punkta sem sérstaklega eru útlistaðir í texta tillögunnar um það að nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin setji sér skýr markmið, metnaðarfull markmið, tímasett markmið, það er lykilpunktur, og mælanleg markmið. Þau verða að vera mælanleg upp á að það sé eftirlit og aðhald með þeim og að allar aðgerðir og áætlanir hins opinbera séu í samræmi við metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, fjármagnið verði að vera til staðar og gagnsæið, lykilbreyta um það að hægt sé að fylgjast með því hver árangurinn er og hægt sé að bregðast við því ef við förum út af brautinni með það, og síðan auðvitað síðast en ekki síst að það reglulega sé endurmetið hver markmiðin og árangurinn er.

Ég ætla að vona að þetta mál fái í reynd góða umfjöllun innan nefndar í kjölfarið og geti orðið upptaktur að því að við förum að stíga þau skref sem þarf að stíga.