154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

leyfisskylda og eftirlit með áfangaheimilum.

10. mál
[17:13]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um leyfisskyldu og eftirlit með áfangaheimilum. Flutningsmenn eru auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Bjarni Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Brynhildur Björnsdóttir. Tillagan lýtur að því að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að undirbúa lagasetningu um leyfisskyldu og eftirlit með rekstri áfangaheimila, skilgreiningu þeirra og hlutverk. Tillagan er nú lögð fram öðru sinni en greinargerð hefur tekið breytingum frá síðustu framlagningu með tilliti til umsagna sem bárust hv. velferðarnefnd. Umsagnir voru að mestu jákvæðar. Alls bárust sjö umsagnir, m.a. frá aðilum sem sinna rekstri áfangaheimila hér á landi og veita þjónustu fólki sem afplánar eða hefur lokið afplánun fangelsisvistar sem og aðilum sem vinna með fólki með vímuefnavanda.

Í gildandi lagaumhverfi er ekki kveðið á um leyfisskyldu eða eftirlit með rekstri og umsjón áfangaheimila. Þá eru engin lagaákvæði sem kveða á um heimild ráðherra til að setja eftirlit með þeim í reglugerð. Leyfisveitingar og eftirlit með áfangaheimilum er frábrugðið því sem almennt gerist í heilbrigðis-, velferðar- og félagsþjónustu. Viðtekið er að ábyrgðaraðili þjónustunnar setji reglur um eftirlit og eftirfylgni með henni sjálfur. Mikilvægt er að árétta að markmiðið með málinu er að eyða þeirri óreiðu sem einkennir málaflokkinn, sem birtist meðal annars í því að ólíkir aðilar veita mismunandi hópum með mismunandi þjónustuþörf ólíka þjónustu.

Virðulegi forseti. Nú er það svo að ég hef í gegnum áranna rás fylgst með málaflokknum og hef tjáð mig talsvert um stöðuna. Vandinn er mikill hjá fólki með vímuefnavanda og sama hvert litið er í málaflokknum eru áskoranir miklar og víðtækar. Hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra réðst í heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma árið 2021. Því miður hefur lítið frést af þeirri vinnu eftir kosningar en slík heildarúttekt er grundvöllur þess að við getum bætt stöðuna. Að sama skapi tel ég mikilvægt að þrátt fyrir að hér á landi séu starfrækt fagleg úrræði sem standa vel að öllum sínum rekstri verði þó að teljast óeðlilegt að ekki sé skýr lagarammi utan um þjónustu við þennan viðkvæma hóp.

Eins og áður segir veita mismunandi aðilar ólíka þjónustu sem fellur undir starfsemi áfangaheimila. Það er því mikilvægt að gera skýran greinarmun á ólíkum úrræðum fyrir ólíka hópa. Sérstaklega þarf að huga að svokölluðum „þurrum“ og „blautum“ úrræðum.

Þá eru áfangaheimili sem annast afplánun hluta fangelsisrefsingar utan fangelsis, skv. 31. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, þar sem viðkomandi dvelur á sérstakri stofnun eða heimili og er þar undir eftirliti. Segja má að þarfir þjónustuþega séu sá þáttur sem skilur á milli ólíkrar starfsemi áfangaheimila og að undir samheitinu áfangaheimili séu mismunandi úrræði og þjónustustig.

Mikilvægt er að starfsemi áfangaheimila hafi skýr markmið, hvert sem úrræðið er, og að til staðar séu fagleg, gagnreynd vinnubrögð og verkferlar sem stuðli að endurhæfingu. Opinbert eftirlit og leyfisskylda sem knýr á um fagleg vinnubrögð, viðveru þar til menntaðs heilbrigðisstarfsfólks sem og félagslega ráðgjöf, hreinlæti, öryggi og aðbúnað eru lykilatriði. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að sá hópur fólks sem sækir þjónustu áfangaheimilis er iðulega í viðkvæmri stöðu og glímir oft við fjölþættan vanda. Hópurinn sem nýtir úrræðin er fjölbreyttur og því þurfa úrræðin að endurspegla þær þarfir.

Virðulegi forseti. Það er skylda okkar sem samfélags að taka utan um stöðu fólks með fíknivanda. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að við erum stödd í miðjum ópíóíðafaraldri. Harmurinn er mikill og ekki bara sjúklinganna heldur allra aðstandendanna líka. Því er okkur tamt að vilja vinna hratt og gera eitthvað strax. Ég geri ekki lítið úr því. En til þess að við getum náð utan um stöðuna, og þar með hjálpað fleirum og náð betri árangri til lengri tíma litið, verður að kortleggja stöðuna. Það er óeðlilegt að svo mikilvæg heilbrigðisþjónusta sé ekki betur römmuð inn í lög og að við vitum ekki raunverulega stöðu mála hverju sinni.

Greina þarf hvaða starfsemi telst í dag til áfangaheimila. Móta þarf ramma um hvaða starfsemi er eðlilegt að falli þar undir og hvert markmið hennar eigi að vera. Eðlilegt fyrirkomulag er að velferðarþjónusta sem þessi sæti opinberu eftirliti og gæðaviðmiðum. Þörfin er brýn og knýr á um skýrar leikreglur. Mikilvægt er að eftirlit vegna útvistunar þjónustunnar í gegnum þjónustusamninga lúti sömu lögmálum og ef um opinbera aðila er að ræða. Þá vill flutningsfólk þessa máls árétta mikilvægi þess að skilgreina þá starfsemi sem fellur undir leyfisskyldu svo að ekki sé neinum vafa undirorpið til hvers konar starfsemi sé vísað. Jafnframt er vísað til þeirrar ábyrgðar að stjórnvöld hafi eftirlit með lögbundinni þjónustu, svo sem heilbrigðis- og félagsþjónustu sem við á hér. Þetta er réttaröryggismál fyrir einstaklinga sem nýta slík úrræði. Á meðan ekki er að finna í íslenskum lögum ákvæði sem varða með beinum hætti starfsemi, leyfisskyldu eða eftirlit með áfangaheimilum er unnt að reka ýmsa, jafnvel vafasama starfsemi undir heitinu án sérstaks eftirlits eða leyfis.

Virðulegi forseti. Ég hef farið hér yfir efni þessarar þingsályktunartillögu og bind miklar vonir við að þetta mál nái nú fram að ganga. Ég hef lokið máli mínu en veit að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra mun fylgja þessu máli til enda sé það vilji þingsins.