136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[10:54]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil þá hv. þingmann þannig að mat hans er það að frumvarp þetta breyti engu hvað varðar fiskveiðiauðlindina, að þau eignarréttindi sem þegar hefur stofnast til í tímans rás frá því lög voru sett um stjórn fiskveiða og þau réttindi sem einkaaðilar hafa áunnið sér á þeim tíma, haldi óbreytt þrátt fyrir þetta ákvæði stjórnlagafrumvarpsins. Þá er það niðurstaða a.m.k. hans og ég get svo sem verið honum nokkuð sammála í því að frumvarpið breytir engu hvað varðar það markmið að lýsa því að fiskveiðistofnar við landið séu þjóðareign vegna þess að frumvarpið gerir það ekki. Frumvarpið tryggir það ekki. Engin yfirlýsing er í frumvarpinu um að fiskstofnar við landið séu þjóðareign, það verður þá að vísa í lög, ákvæði laga, til að gá að því hvort eitthvert hald sé í því að menn geti náð þessu fram.

Mér finnst líka athyglisvert að þeir sem flytja þetta mál, á þeirri forsendu að þinginu sé ekki treystandi til að gera breytingar á stjórnarskránni að þessu sinni, gera ráð fyrir að það verði þingið sem í raun útfylli ákvæði stjórnarskrárinnar um það hvaða náttúruauðlindir séu þjóðareign. Hvernig má það vera að þinginu sé treystandi til þess að taka þá ákvörðum með einföldum lögum hverjir sinni hvaða auðlindir séu á hverjum tíma þjóðareign? Því það er bæði hægt að fella auðlindir undir þetta stjórnarskrárákvæði með einföldum lögum og taka þær undan þessu ákvæði með einföldum lögum. Mér finnst þetta alveg stórfurðuleg lagasetning, virðulegur forseti, sem hér er verið að leggja til.