136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[10:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki alveg treyst mér til að kveða upp úr í þessu máli. Ég sagði áðan að ég teldi að þetta væri mjög opið fyrir túlkun og það er einmitt það sem ég hef verið að gagnrýna í þessu sambandi vegna þess að það skapar óvissu. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði um texta greinarinnar og maður vonar auðvitað að meining sé á bak við þetta.

Ég er þeirrar skoðunar að skilgreina þurfi fiskveiðiréttinn mjög skýrt, það sé hluti af því fiskveiðistjórnarkerfi sem eigum að viðhalda, hvaða breytingar sem við þurfum annars að gera á því. Hins vegar er það svo að þegar maður les umsagnir frá þeim sem hafa verið að pæla í þessum málum árum saman, t.d. hagsmunaaðilar og lögfræðingar og til að mynda auðlindahagfræðingar eins og Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson, þá óttast þeir mjög að verið sé að grafa undan fiskveiðiréttinum með þessum hætti.

Hins vegar er það ákveðin huggun harmi gegn og bót í máli sé það rétt sem er túlkun Guðjóns Arnars Kristjánssonar og Ellerts B. Schrams og þeirra annarra sem skrifa undir þetta álit, að þessi texti frumvarpsins hrófli ekki í neinu við beinum eða óbeinum eignarréttindum sem menn hafa þegar öðlast á náttúruauðlindum. Ég geri ráð fyrir að þessi yfirlýsing verði notuð þegar það gerist, ef þetta mál verður að lögum, að málaferli hefjist. Þá munu menn styðjast við lögskýringar þeirra hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar og Ellerts B. Schrams og annarra sem segja þetta, sem er auðvitað mjög mikil pólitísk yfirlýsing af þeirra hálfu — að þetta mál hrófli ekki við beinum eða óbeinum eignarréttindum og eru þar með að vísa til þess atvinnuréttar sem hefur stofnast til í tímans rás eftir setningu laga um stjórn fiskveiða. Þetta eru heilmikil pólitísk tíðindi sem felast í því að þessir hv. þingmenn hafi skrifað undir þetta en ég fagna því.