136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna allri viðleitni af hálfu hv. þm. Atla Gíslasonar til að leiða málið til lykta í samkomulagi. Við munum það, ég og hv. þm. Atli Gíslason, að þáverandi formaður sérnefndarinnar sagði við lok málsins í þeirri nefnd að tími samkomulags væri liðinn. En ég verð þó að leiðrétta hv. þm. Atla Gíslason, það kom skýrt fram af okkar hálfu í sérnefndinni að við teldum koma til greina að breyta 79. gr. og taka undir sjónarmið sem koma fram í 2. gr. frumvarpsins með það að markmiði að koma þjóðaratkvæðagreiðslu inn í ferlið varðandi stjórnarskrárbreytingar. Það kom ítrekað fram í nefndinni og það hefur ítrekað komið fram í þessari umræðu.

Annað atriði er að mér er eiginlega óskiljanlegt hvers vegna hv. þm. Atli Gíslason telur að gera eigi allar þessar breytingar á sama tíma og hvers vegna hann telur að það liggi svona mikið á, að það megi ekki bara samþykkja breytingar á 79. gr. og taka þess vegna sumarið og haustið til þess að afgreiða hinar breytingarnar til þess að reyna að ná sem mestri sátt. Ég spyr: Hvað liggur á? Eru raunverulegar, efnislegar forsendur sem gera það að verkum að hv. þingmanni þykir liggja á eða eru það einhverjar pólitískar forsendur sem tengjast kosningunum sem fram undan eru? Er verið að nota stjórnarskrármálið í einhverjum flokkspólitískum tilgangi skömmu fyrir kosningar? Maður hlýtur að spyrja sig og ég spyr hv. þingmann hvort það geti verið. Ef hann telur að það séu ekki flokkspólitískir hagsmunir eða flokkspólitískur leikur sem valda því að klára þurfi þessi mál núna á 10 dögum, vildi ég gjarnan vita hvaða efnislegu forsendur og nauðsyn eru á því (Forseti hringir.) að samþykkja þessar breytingar á næstu 10 dögum.