138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:22]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, sem er 634. mál þingsins.

Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á lögum um húsnæðismál sem miða að því að gera Íbúðalánasjóði kleift að bregðast við breyttum þörfum á húsnæðismarkaði. Í frumvarpinu er að finna fjölbreyttari leiðir fyrir Íbúðalánasjóð til að mæta nýjum þörfum, breyttum aðstæðum á íbúðalánamarkaði og breyttum viðhorfum í kjölfar hrunsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja að með mikilli hækkun skuldabyrði á undanförnum missirum hefur áhugi fólks á að eiga húsnæði minnkað. Það er líka ljóst að það kann að vera þörf á fjölbreyttari leiðum en áður til að tryggja húsnæðisöryggi fólks og frumvarpinu er ætlað að mæta þessum aðstæðum. Því er líka ætlað að mæta þeim endurteknu kröfum sem settar hafa verið fram um að við reynum að hefja vegferð út úr verðtryggðu umhverfi íbúðalána.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar í frumvarpinu sem heimila Íbúðalánasjóði að bjóða íbúðir sem sjóðurinn hefur keypt eða tekið yfir á kaupleigu. Með lögum nr. 138/2008 var lögfest heimild fyrir sjóðinn til að leigja eða fela öðrum að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á nauðungaruppboði og felst breytingin frá gildandi lögum í því að lagt er til að allir húsaleigusamningar Íbúðalánasjóðs verði með kauprétti. Ekki er gert ráð fyrir að skylt verði að nýta kauprétt heldur verði það ákvörðun leigutaka hvort og hvenær hann nýtir kaupréttinn.

Við erum nú að vinna að útfærslum á þessu kaupréttarfyrirkomulagi og almennt mun útfærslan geta orðið sú að leiga sem greidd er myndi stofn til útborgunar í viðkomandi íbúð þegar kaupréttur myndast, sem yrði í tilviki minni íbúða væntanlega almennt eftir þrjú ár eða aðeins lengri tíma þegar um stærri íbúðir væri að ræða. Með þessu er verið að mæta þörfum þeirra sem þurfa að komast út á markaðinn núna en eiga ekki fé handbært til að borga útborgun. Þetta er líka tilraun til að mæta þörfum þeirra sem þurfa við núverandi aðstæður að minnka við sig vegna þess að þeir hafa reist sér hurðarás um öxl og búa í of dýru húsnæði miðað við greiðslugetu en hafa kannski ekki endilega handbært fé til að reiða fram útborgun í íbúð.

Í öðru lagi er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilað að gefa út óverðtryggða skuldabréfaflokka, en samkvæmt gildandi lögum þurfa öll fjármögnunarbréf ÍLS að vera verðtryggð með vísitölu neysluverðs. Með þessu viljum við gera tilraun til þess að bjóða upp á óverðtryggð íbúðalán. Hugsunin er sú að bjóða væntanlegan flokk með vöxtum sem væru fastir í fimm ár þannig að fólki byðist að taka húsnæðislán með föstum óverðtryggðum vöxtum til fimm ára og að fimm árum liðnum færi fram annað útboð og markaðsaðstæður þá réðu vöxtunum til næstu fimm ára.

Það kann vel að vera að aðstæður séu erfiðar fyrir útgáfu óverðtryggðra skuldabréfa, flest bendir til þess að áhættuálagið sé mikið á markaði en með lækkandi vöxtum má búast við að aðstæður verði góðar til að hleypa þessari tilraun af stokkunum. Þegar bankar hafa boðið óverðtryggð lán hingað til hefur ekki verið mikil eftirspurn eftir þeim enda hefur í flestum tilvikum verið boðið upp á breytilega vexti. Það má aldrei gleyma því, jafnvel þótt okkur þyki nú nóg um hækkun verðtryggðra lána á undanförnum missirum, að ef við hefðum sem þjóð búið almennt við óverðtryggð íbúðalán með breytilegum vöxtum, kannski með mánaðarlega breytilegum vöxtum, hefði þorri þjóðarinnar misst húsnæði sitt í hruninu.

Það er því mikilvægt að skapa þann grunn að hægt sé að bjóða þessi lán en auðvitað verða markaðsaðstæður að ráða því hversu vænlegur kostur þau verða. Síðan er auðvitað mikilvægt að upplýsa fólk vel um kosti og galla við það útlánaform.

Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu að ákvæði um lánveitingu Íbúðalánasjóðs til húsnæðissamvinnufélaga vegna búsetuíbúða verði lögfest í sérstökum kafla í lögunum um húsnæðismál. Er breytingunum ætlað að styrkja starfsemi húsnæðissamvinnufélaga og m.a. auðvelda þeim endurfjármögnun búsetuíbúða þegar skipt er um búseturéttarhafa. Með þessu viljum við hefja endurskoðun á lánafyrirkomulagi til húsnæðissamvinnufélaga. Við lítum á það sem mikilvægan þátt í að tryggja húsnæðisöryggi fólks til lengri tíma litið að skapa húsnæðissamvinnufélögum raunverulega starfsmöguleika. Útlánakerfi Íbúðalánasjóðs hefur mikið byggst upp í kringum eignaríbúðakerfið og mikilvægt er að hefja þá vegferð að greiða fyrir fjármögnun búseturéttarfélaga til þess að gera þann kost að raunverulegum valkosti við eignaríbúðakerfið.

Þá er að síðustu lagt til í frumvarpinu að lögfestar verði tímabundnar heimildir fyrir Íbúðalánasjóð til að veita lán til nánar afmarkaðra framkvæmda, m.a. til að fyrirtæki og stofnanir geti aukið aðgengi að húsnæði sínu. Það er nýmæli að fyrirtækjum og stofnunum sem ekki eru ríkisstofnanir verði gert kleift að taka lán hjá Íbúðalánasjóði. Lánveitingar Íbúðalánasjóðs hafa hingað til verið bundnar alfarið við íbúðarhúsnæði. Við teljum hins vegar að hið félagslega markmið að auka aðgengi og greiða úr aðgengishindrun sé það mikilvægt að það réttlæti að við víkkum út þessar heimildir þótt varlega sé farið varðandi veðsetningarmörk og þannig gætt að því að lágmarka áhættu sjóðsins.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir víðtækari heimildum Íbúðalánasjóðs til að fjármagna stórfelldar breytingar á fjölbýlishúsum á borð við hönnun, byggingu og uppsetningu lyftu í eldri hús. Við teljum að slíkar umbætur á húsakosti geti gert búsetu í heimahúsi að raunverulegum valkosti við stofnanaþjónustu við aldraða og fólk með hreyfihömlun og dregið úr þörf fyrir byggingu sérhæfðra þjónustuíbúða og hjúkrunarstofnana. Frumkvæði af þessum toga hefur verið reynt í nágrannalöndum okkar og gefist afskaplega vel. Það er ekkert launungarmál að við viljum setja þessi tímabundnu ákvæði í lög nú til þess að auðvelda Íbúðalánasjóði að greiða fyrir mikilvægum viðhalds- og endurbótaframkvæmdum nú þegar erfitt er um fjármögnun slíkra verkefna og atvinnuleysi er mikið. Það fara því saman samfélagslegir hagsmunir að öllu leyti í því að auðvelda aðgengi, gera fólki kleift að búa í húsunum sínum lengur þegar aldur færist yfir eða þegar fólk þarf að stríða við hreyfihömlun og eins að nýta þær hendur sem nú eru iðjulausar þegar fólk fær ekki vinnu við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í byggingariðnaði.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.