139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Hann sagði í upphafi máls síns að það væri ákveðinn misskilningur að þetta hefði áhrif á fjárlög ársins 2011, þetta hefði eingöngu áhrif á árið 2012. Ég vil fá úr því algjörlega skorið því í umsögn um frumvarpið frá fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir að þetta muni minnka tekjur ríkissjóðs um 5 milljarða miðað við núgildandi fjárlög. Eftir því sem ég best veit eru fjárlög 2011 enn í gildi en ekki 2012 þannig að ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt sem komið hefur fram og hvort engin neikvæð áhrif verði á árið 2012.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um samkomulag sem búið er að gera annars vegar við viðskiptabankana og hins vegar við lífeyrissjóðina um greiðslu á 3,5 milljörðum af þeim 6 milljörðum sem eru aukning í vaxtaniðurgreiðslur. Mig langar að spyrja hvort það samkomulag gildi líka fyrir árið 2011 líka og raunar hvort samkomulag sé komið á. Eins og gefur að skilja getur þetta hlutfall breyst, það er reiknað með að þetta sé til helminga. Er búið að ganga frá samkomulagi við þessa aðila, lífeyrissjóði og bankastofnanir, um að þeir taki þátt í þessum kostnaði á árinu 2011?

Síðan langar mig líka að spyrja hvort tekið sé tillit til þess, í þeim 5 milljörðum sem afkoman á að vera lakari hjá ríkissjóði, að eftir er að leysa úr því hvernig greiða eigi 2,5 milljarða af 6 milljörðunum.

Að lokum, virðulegi forseti, af því að nú hafa kjarasamningar opinberra starfsmanna, margra hverra, verið lausir í langan tíma, vil ég spyrja hæstv. ráðherra um hvaða áhrif hann telji að það hafi á útgjöld ríkissjóðs, bæði fyrir árið 2011 og 2012.