139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[13:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér ráðstafanir í tengslum við undirritun kjarasamninga. Ég tek undir með flestum öðrum að það er mjög ánægjulegt að hér hafi náðst kjarasamningar. Það gefur ákveðinn frið til að starfa áfram og því fylgir ákveðinn stöðugleiki. Hins vegar eru þannig forsendur í kjarasamningum að það er ekki alveg á hreinu að þeir taki gildi.

Svo verð ég að segja að mér finnst menn ganga ótrúlega langt í því að hækka laun. Margir Íslendingar hafa farið til útlanda vegna atvinnuleysis fyrst og fremst. Það er mjög dýrt, herra forseti, að fara til útlanda með fjölskyldu sína og búslóð. Menn gera það ekki nema vegna þess að þeir hafa lent í miklum ógöngum út af atvinnuleysi. Ég held að það sé ekki endilega út af lágum launum.

Það er beint samhengi á milli atvinnuleysis og launakostnaðar fyrirtækja. Þegar lágmarkslaun eru hækkuð vex atvinnuleysi, alveg sérstaklega lágtekjufólks. Ef við förum yfir í alveg ýtrasta dæmi getum við sagt að ef lágmarkslaun í einhverju landi yrðu milljón krónur á mánuði yrðu nánast öll fyrirtæki gjaldþrota og þá ykist atvinnuleysið mjög mikið. Hækkun lágmarkslauna eykur atvinnuleysi. Það er ágætt að hækka lágmarkslaun þegar rífandi atvinna er um allt en það er ekki skynsamlegt að gera það í þessari stöðu. Eingreiðslurnar verða líka mjög þungar fyrir mörg fyrirtæki af því að þær koma á einum punkti, 50 þús. kr. á mann, fyrirtækin þurfa í rauninni að borga 60 þús. kr. Það er rétt að fara í gegnum það hvað verður um fimmtíuþúsundkallinn. Fyrirtækin þurfa að borga 8% tryggingagjald, 8% í lífeyrissjóð og 1% sjúkratryggingagjald. Það má segja að þau borgi um 60 þús. kr. fyrir þessar 50 þús. kr. Síðan þarf launþeginn að borga til ríkis og sveitarfélaga, 4% í lífeyrissjóð, 1% stéttarfélagsgjald og u.þ.b. 40% í staðgreiðslu af því að þetta lendir í jaðarskatti. Ég hugsa að hann sjái sjálfur á að giska 27 þús. kr. af þessum 60 þús. kr. Restina fá ríkissjóður, sveitarfélög, lífeyrissjóðir, sjúkrasjóðir og (Gripið fram í: Starfsendurhæfing.) starfsendurhæfingarsjóðir, já, sem eru það nýjasta. Það er dálítið villandi að segja við fólk að það fái 50 þús. kr. í launaumslagið, en kostnaðurinn fyrir fyrirtækið er gífurlegur. Fyrirtæki með tíu manns í vinnu þarf að borga 600 þús. kr. fyrir þessa eingreiðslu núna í júní. Það má vel vera að ef fyrirtækið stendur mjög tæpt, herra forseti, muni það gefast upp og segja upp fólki. Þá fer starfsfólkið, tíu manns, á atvinnuleysisbætur. Þess vegna spurði ég að því hvort menn hefðu reiknað með auknu atvinnuleysi í kjölfarið. Auðvitað vonum við að það verði ekki, auðvitað vonum við að einhvers staðar hífi eitthvað þetta upp.

Rétt áðan var dreift frumvörpum til laga um ráðstafanir í sjávarútvegi, hinum frægu tveimur kvótafrumvörpum. Þau ganga út á það að hrekkja sjávarútveginn. Þau hvetja ekki til fjárfestinga. Það verður væntanlega einhver samdráttur í sjávarútvegi. Ég er hræddastur við bann við framsali sem hefur verið aðall kerfisins. Þó að það hafi verið mjög miklum takmörkunum háð hefur það haldið uppi arðsemi í kerfinu þannig að núna starfa helmingi færri við það en fyrir tíu árum og arðsemi sjávarútvegs á Íslandi er gífurlega mikil, vegna framsalsins, örugglega með því besta í heiminum þótt ég hafi reyndar ekki kannað það. Ef menn ætla að banna framsalið hverfur þessi arðsemi og þá hverfur ein af þremur stoðunum undir velferðarkerfinu. Það er önnur saga. Ég fagna þessum kjarasamningum, en hygg að menn hafi skotið ansi hátt og kannski yfir markið.

Frumvarpið er margar og óskyldar greinar út og suður. Það er dálítið erfitt að henda reiður á því. Sumt af þessu sýnir að við höfum stundað tilraunalagasetningu. Það er talað um tilraunaeðlisfræði. Ég tala um tilraunalagasetningu þar sem menn leiðrétta einhverja vitleysu sem hér var gerð fyrir stuttu. Þar á meðal er virðisaukaskattur á rafræna þjónustu sem er tekinn til baka, nýsett lög. Sömuleiðis er skattlagning á áfengi og tóbak sem er reyndar ekki nýsett en tiltölulega nýleg lög. Fríhafnirnar eru annað. Það er líka verið að breyta skattlagningu á fólk sem starfar hjá eigin fyrirtækjum og ekki eru lengur tekin inn ýmis ákvæði sem trufluðu það. Þetta er gert að kröfu aðila vinnumarkaðarins sem því miður stunda lagasetningu hér á landi. Kannski ætti að gera kröfu til þess að þeir sem þar ráða ríkjum verði kosnir almennri kosningu.

Eins og ég gat um í andsvari áðan á að verðtryggja persónuafsláttinn frá og með næstu áramótum. Persónuafslátturinn er mjög mikilvæg vörn fyrir lágtekjufólkið því að hann ákvarðar og metur tekjumörk manna áður en þeir byrja að borga skatta. Sérstaklega lágtekjufólkið nýtur þess, fólk sem er með lágar tekjur. Ég vil helst ekki tala um lágtekjufólk af því að ég held að lágar tekjur séu ekki persónueinkenni. Hann er bláeygður og með lágar tekjur — ég er á móti svoleiðis hugsun. Auðvitað á fólk bara að breytast og hækka í tekjum og stefna að því. En oft og tíðum er skattkerfið og sérstaklega bótakerfið þannig að menn mega í rauninni ekki bæta við sig tekjum, svokallaðar fátæktargildrur.

Í 1. gr. er talað um ótengda aðila. Þarna er talað um vexti sem eru greiddir til útlanda. Ég verð alltaf dálítið hugsi þegar ég sé þessi orð, „ótengdir aðilar“, því að það er svo auðvelt að fara fram hjá þeim að það er með ólíkindum. Menn stofna félag í Lúxemborg sem verður milliliður og enginn veit neitt um það fyrirtæki, svo ég tali nú ekki um ef það er stofnað á Tortólu. Þá getur maður borgað vexti þangað og þá er það greinilega óskyldur aðili af því að einhver maður úti í heimi stofnaði það og enginn veit hver á það. Ég set mikið spurningarmerki við „ótengda aðila“ í þessu sambandi.

Svo er verið að laga ákvæði sem sett var um að þeir aðilar sem starfa hjá eigin fyrirtæki megi borga sér laun. Það er verið að laga það aftur. Þetta er tilraunalagasetning. Hið sama á við um nýsköpunina sem þarf að takmarka gildistímann af því að það brýtur samþykktir Evrópska efnahagssvæðisins o.s.frv. Ég hugsa að hv. efnahags- og skattanefnd þar sem ég á sæti þurfi að fara vandlega í gegnum þetta.

Svo eru ákvæði um endurhæfingu sem er mér ákveðið hjartans mál af því að ég hef af því verulegar áhyggjur hvað öryrkjum fjölgar mikið á landinu. Ég held að það geti varla verið að þjóðin sé orðin allt í einu svona sjúk eða lendi svona mikið í slysum. Fyrir utan það eru það mjög bráð örlög fyrir fólk, hræðileg örlög, að verða öryrkjar. Orðið felur í sér að maðurinn sé ör-yrki. Aðalvandinn í því sambandi er það sem við höfum notað hér á Íslandi, ég held að það sé einsdæmi, svokölluð 75% örorka, að maður sem er 75% öryrki eða meira fær fullar bætur, sá sem er 74% eða minna fær mjög lítið. Ef hann er undir 65% fær hann ekki neitt. Það er mikill hvati hjá öryrkjum að verða metnir 75% öryrkjar og endurhæfast ekki svo mikið að þeir verði 74%. Ég hef margoft bent á að þetta sé gildra. Við verðum að breyta þessari hugsun en menn hafa ekki haft dug eða þor eða skilning á málunum til að breyta því.

Ég er mjög hlynntur því að allt sé gert til að reyna að endurhæfa fólk og koma því aftur á vinnumarkað, enda hef ég heyrt hjá mjög mörgum öryrkjum að þeim líði ekkert vel í því hlutverki og vilji gjarnan fara aftur að vinna. Því miður mæta þeir miklum fordómum og kerfið sem ég gat um, þetta 75% örorkukerfi, vinnur gegn þeim. Ég hef talað við fólk sem hreinlega segir: „Reyndu að sækja um vinnu og segja að þú hafir verið öryrki í tíu ár. Þá er nokkuð öruggt að þú færð ekki vinnu af því að það eru ákveðnir fordómar.“ Þessu þurfum við að snúa við og breyta, herra forseti. Hluti af því er kerfið um starfsendurhæfingarsjóði sem því miður er fjármagnað með sköttum. Ég hefði viljað sjá það allt öðruvísi fjármagnað, hreinlega með því að gefa lífeyrissjóðunum heimild til að greiða fyrir starfsendurhæfingu, enda er það þeirra hagur að fólk endurhæfist og hætti að taka örorkulífeyri að einhverju leyti. Þessu þyrfti að breyta.

Ég veit ekki hvað ég fer mikið meira í þetta. Mér finnst menn ekki hafa metið áhrif kjarasamninganna á atvinnustig, það hefur ekki verið metið hvort atvinnustigið minnki verði atvinnuleysið enn meira og þar af leiðandi enn meiri greiðslur ríkissjóðs í Atvinnuleysistryggingasjóð og enn meiri brottflutningur frá landinu. Fólk sem er atvinnulaust flýr land, fyrst og fremst atvinnulaust fólk að ég hygg. Það er vísað í Hagstofuna en ég vildi gjarnan að fjármálaráðuneytið ynni eins hratt og hægt er greinargerð og áætlun um það hvaða áhrif þessir kjarasamningar hafa á atvinnustig og þar með tekjur og gjöld ríkissjóðs.