139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

framkvæmdaátak í vegamálum á árunum 2011--2013.

618. mál
[16:20]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Mikil umræða hefur farið fram í samfélaginu um að gera þurfi sérstakt átak í vegaframkvæmdum á þessu ári og er þess skemmst að minnast að í nóvember, að ég held, á liðnu ári lofaði ríkisstjórnin auknum framlögum til sérstakra átaksverkefna í vegagerð sem áttu að koma til framkvæmda strax eða fljótlega á þessu ári, þ.e. útboð þeirra yrðu hafin fyrir lok febrúar. Þessu var almennt fagnað, sérstaklega af þeim sem starfa í greininni og Samtökum iðnaðarins sem fögnuðu ákvörðun ríkisstjórnarinnar og reiknuðu með að allt að 500 störf mundu skapast í geiranum strax á þessu ári. Í raun hefur ekkert verið efnt af þeim loforðum sem voru gefin. Það er svo sem í takt við annað sem talað hefur verið um í atvinnumálum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Í þessari þingsályktunartillögu leggjum við flutningsmenn til að farið verði í sérstakt átak á árunum 2011–2013 og reikna megi með að þau verkefni, sem eru stór og smá úti um allt land, muni geta nýst mjög vel þessum geira auk þess að skapa miklu meira öryggi í allri umferð. Það má reikna með því að á annað þúsund störf geti skapast við þessi verkefni.

Það er engum blöðum um það að fletta að verktakaiðnaðurinn, og þá sérstaklega sá sem snýr að mannvirkjagerð og vegagerð, er sennilega sú grein sem hefur farið allra verst út úr efnahagshruninu vegna samdráttar í framkvæmdum. Mörg fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota, önnur hafa flutt starfsemi sína úr landi og leitað á erlend mið. Á fundi sem ég átti með Vegagerðinni um þessi mál fyrr í vetur var lýst áhyggjum af hruni í þessum geira, atvinnutæki hefðu verið flutt úr landi og sá mannauður sem byggðist upp á undanförnum árum hefði farið hratt dvínandi vegna þess að fólk leitaði í önnur störf og ekki síst vegna þess að margir hefðu flutt úr landi.

Ekki fyrir löngu heimsótti ég fyrirtæki sem hefur verið nokkuð stórt á þessum vettvangi, annað af tveimur fyrirtækjum hér sem leggur malbik. Þar hefur starfsmannafjöldi verið dreginn saman um 70% og erlendir eignaraðilar sem eru hluti eignaraðila að því fyrirtæki hafa alvarlega viðrað þá hugmynd að flytja starfsemina úr landi, að nýjar vélar sem voru settar hér upp árið 2008 verði fluttar burtu og þar með yrði eitt fyrirtæki eftir á þeim markaði.

Það eru mörg verkefni í vegabótum og vegagerð sem eru tilbúin til framkvæmda. Samkvæmt meðfylgjandi yfirliti með þessari þingsályktunartillögu eru stór og smá verkefni um allt land í heild 42 milljarðar. Það eru verkefni sem geta verið tilbúin til útboðs núna, einhver kannski örfáum vikum eða mánuðum seinna. Það eru 22 milljarðar fyrir utan þá jarðgangagerð sem kemur fram í upptalningunni. Þegar efnahagshrunið skall á var búið að bjóða út sum af þessum verkum, önnur voru tilbúin til útboðs en frestað og eins voru útboð á nokkrum verkum dregin til baka eða þeim frestað.

Fyrir um það bil tveimur mánuðum eða innan við það, kannski fyrir sex vikum síðan, boðaði hæstv. innanríkisráðherra nokkra þingmenn Suðurkjördæmis og Suðvesturkjördæmis á fund sinn ásamt sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi til að ræða þessi mál. Hann lagði fram tillögu fyrir þann hóp sem þar var staddur um að gert yrði samkomulag um að hefja átak og sérstakar vegaframkvæmdir gegn því að 200 kr. gjald yrði lagt á allar leiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnes, á Suðurland og vestur á Norðurland, sem yrði byrjað að innheimta árið 2016. Í stuttu máli var þeirri tillögu hafnað af fundarmönnum. Framkvæmdir við þessi verkefni átti að fjármagna með útgáfu ríkisskuldabréfa og greiðslur af þeim áttu að hefjast samhliða innheimtu gjaldanna árið 2016.

Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að við verðum að fara í endurskoðun á því hvernig við ætlum að haga skattlagningu vegna veganotkunar í framtíðinni. Sú leið sem farin hefur verið, að innheimta hér ákveðið eldsneytisgjald, mun ekki ganga upp til lengri tíma litið. Hér er bifreiðakostur landsmanna að breytast mjög mikið. Bílar sem eru fluttir til landsins í dag eru miklu eyðslugrennri en við höfum þekkt áður, auk þess sem vaxandi fjöldi bíla notar ekki hið hefðbundna eldsneyti og greiðir þess vegna engin veggjöld. Sú innheimtuaðferð sem við höfum notað gengur ekki upp og henni þarf að breyta. Það er því magnað að við skulum standa frammi fyrir því að geta ekki farið í þessar mikilvægu framkvæmdir, bæði út frá öryggi og með tilliti til atvinnu, og komið þeim verkefnum af stað sem liggja á borðinu og haft þetta fimm ára tímabil til að ákveða með hvaða hætti við ætlum að haga skattlagningu í framtíðinni til að standa undir slíkum framkvæmdum.

Framkvæmdirnar mundu hleypa miklu lífi í þennan veikburða geira og náttúrlega í atvinnulíf landsmanna og væru mjög mikilvægur þáttur í heildaruppbyggingu íslensks atvinnulífs sem er svo brýn sem raun ber vitni. Það er dálítið sérstakt við vegaframkvæmdir að það eru sennilega fáar ef nokkrar framkvæmdir þar sem framlög skila sér eins hratt í ríkiskassann og í þessu dæmi. Það má reikna með því að allt að 50% komi nánast strax til ríkissjóðs í formi virðisaukaskatts, tekjuskatts af þeim einstaklingum sem hafa atvinnu af og lægri greiðslna í atvinnuleysisbætur. Að auki eru langtímaáhrif af bættum vegum í öryggisskyni nokkuð sem skilar okkur miklu til lengri tíma litið.

Það er ekki ofsögum sagt, virðulegi forseti, að mál sem tengjast atvinnusköpun þvælast mikið fyrir þessari ríkisstjórn. Það er uppnám í orkufrekum iðnaði og þrátt fyrir metnaðarfull framtíðaráform Landsvirkjunar er ekki útlit fyrir að þau geti gengið eftir. Landsvirkjun hefur kynnt mjög metnaðarfulla áætlun um að tvöfalda orkuframleiðsluna á næstu 15 árum og hefur reiknað út þá arðsemi sem þjóðin mundi hafa af slíkum framkvæmdum og af því fyrirtæki að þeim tíma liðnum. Fyrirstaðan í ríkisstjórnarflokkunum er mikil. Þeir koma slíkum ágreiningsmálum ekkert áfram. Er skemmst að minnast yfirlýsingar frá hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, ásamt fleirum reyndar, þar sem hún sagðist ekki styðja ríkisstjórnina ef teknar yrðu ákvarðanir um að fara í virkjanir í neðri hluta Þjórsár.

Baráttan um skynsamlega nýtingu orkuauðlindanna hefur staðið í 50–60 ár eða allt frá því að hugmyndir um stóriðju fóru að kvikna hér. Sömu flokkar voru á móti þessum málum þá og eru á móti þeim núna. Það væri fróðlegt að líta yfir íslenskt samfélag í dag ef stefna þeirra hefði ráðið meginferð á undanförnum áratugum. Ég held að við megum vera þakklát fyrir að þær leiðir voru ekki farnar.

Til að komast út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir er verið að fara allt aðrar leiðir á Íslandi en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við og eiga við sambærileg vandamál að stríða. Niðurstaðan er sú að hagvöxtur er hér miklu minni, þróunin er engan veginn ásættanleg og fjárfesting í íslensku atvinnulífi er sú minnsta í áratugi. Það er mikill skortur á skilningi stjórnvalda á því hvaða leiðir munu rífa okkur út úr þessum vanda, koma okkur af stað, efla íslenskt atvinnulíf og auka þar með hagvöxtinn í landinu.

Hv. þm. Helgi Hjörvar ræddi í ræðustól Alþingis um önnur mál fyrr í dag. Hann var að ræða skattamál. Það var fróðlegt að hlusta á hv. þingmann þegar hann sagði að umræðan væri allt of svartsýn, óhóflega svartsýn, og það væri óþarfi að tala af svo mikilli svartsýni, niðursveiflunni væri lokið og vöxtur í sjónmáli, búið væri að búa til ramma fyrir atvinnulífið og vitnaði hann þá væntanlega til kjarasamninganna sem fylgdi stöðugleiki. Ég vil, virðulegi forseti, kalla þetta dæmi um fólk sem talar úr fílabeinsturni, fólk sem gerir sér ekki grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem er í samfélaginu. Það eina sem fyrirtækin geta treyst á í dag er að gjöldin muni hækka, (Gripið fram í.) skattar muni hækka, launagreiðslur muni hækka. Stjórnvöld hafa áður gefið loforð og er skemmst að minnast þess stöðugleikasáttmála sem gerður var og ekki var hægt að finna nein atriði í, held ég, sem ríkisstjórnin stóð við enda er vantraust aðila vinnumarkaðarins gagnvart ríkisstjórninni fullkomið. Engin stór verkefni eru í sjónmáli hjá hæstv. ríkisstjórn og enginn stöðugleiki er fyrir hendi, eða er einhver stöðugleiki í sjávarútvegi, grunnatvinnuvegi okkar, um þessar mundir? Eða er einhver stöðugleiki í iðnaði eða eru væntingar um miklar uppbyggingar á þeim vettvangi sem ríkisstjórnin stendur fyrir? Eru áform um nýjar leiðir í virkjanamálum til að efla hér orkufrekan iðnað? Það er reyndar bjart yfir ferðaþjónustunni og því ber að fagna, útlitið er bjart fyrir þetta ár og það er gott.

Sú leið, virðulegi forseti, sem við leggjum til að verði farin í samgöngumálum mundi hleypa miklu lífi í atvinnugrein sem hvað verst hefur farið út úr efnahagshruninu og leiðin er fær. Hún liggur á borðinu en enn og aftur geta ríkisstjórnarflokkarnir ekki komið sér saman um hvaða leið skuli farin. Það er með ólíkindum að samstaða skuli vera um að fara hér í framkvæmdir sem fjármagnaðar skulu úr ríkissjóði og að greiðslur af þeim skuldabréfum skuli hefjast árið 2016 en málið fær ekki framgang vegna þess að við erum ekki búin að ákveða skattlagninguna fyrir fram. Hæstv. innanríkisráðherra kallaði það um daginn, á fundinum sem ég vitnaði til, að ég vildi skilja eftir opinn tékka inn í framtíðina og það væri ekki verkefni þessarar ríkisstjórnar að skilja eftir opinn tékka. Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að tillögur eins og þær sem við flytjum hér í dag séu fluttar af ábyrgðarleysi og að við gerum okkur ekki grein fyrir því að standa þurfi við skuldbindingarnar sem þær mundu kalla yfir okkur í framtíðinni. Þær eru fluttar af fullri ábyrgð og með tilliti til þess að menn verði síðan að taka um það ákvarðanir hvernig við ætlum að haga skattlagningu af veganotkun í framtíðinni þannig að hægt verði að standa undir framkvæmdum sem þessum. Það er nægur tími til að vinna úr því. Hér hafa verið settar á skattalagabreytingar á skemmri tíma en við höfum í þessu máli.

Framkvæmdirnar geta ekki beðið. Við þurfum að koma hjólum atvinnulífs af stað og það eru fá verkefni í atvinnuflóru okkar sem hægt er að setja af stað með skemmri fyrirvara en vegagerð. Eins og ég fór yfir áðan eru verkefnin tilbúin hjá Vegagerð ríkisins til útboðs og jafnvel búið að bjóða út einhver þeirra. Það er hægt að fara af stað og breyta aðstæðum á þessum markaði á mjög skömmum tíma. Það er höfuðnauðsyn, virðulegi forseti, að við eflum hér atvinnulíf, komum okkur í gang. Þessi tillaga er flutt í þeim tilgangi að svara þeirri brýnu þörf auk þess sem hún hefur mikil áhrif á öryggismál, sérstaklega á þjóðvegum landsins.