139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga H. Hjörvar fyrir framsögu hans um þetta frumvarp til laga. Það lætur í sjálfu sér ekki mikið yfir sér en er gríðarleg breyting í raun á því umhverfi sem við höfum búið við hér á landi varðandi innflutning á dýrum. Nú nota ég orðið „dýr“ en ekki gæludýr því að þetta getur átt við eða haft ákveðnar afleiðingar fyrir dýr almennt.

Það má heyra á hv. þingmanni, sem kemur vitanlega fram í frumvarpinu eða skýringum með því, að verið sé að færa okkur nær því kerfi sem Evrópusambandslöndin hafa búið við og var því lýst ágætlega í framsögu hans.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að tvennu í þessari umferð. Í fyrsta lagi hvort hv. þingmaður og flutningsmenn telji eða geti fullvissað okkur samþingmenn sína um að með gæludýrum geti ekki borist sjúkdómar sem geti smitast yfir í búfénað, þ.e. að ekki sé hætta á því — ég heyrði að hv. þingmanni er annt um íslenska bústofninn — að sjúkdómar fari frá gæludýrum yfir í búfénað og geti þar af leiðandi haft þær afleiðingar sem við ættum að geta ímyndað okkur. Og í öðru lagi hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að með gæludýrum geti líka borist leyndir sjúkdómar, sjúkdómar sem ekki er prófað fyrir og ekki eru þekktir í gæludýrum en geta verið til staðar á afmörkuðum svæðum eða duldir án þess að það hafi komið fram.