139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, víst hafði ég svarað því. Ef fólk vill brjóta lögin þá brýtur það lögin og það brýtur lögin sem eru í gildi í dag, það vitum við. Það er ákveðið vandamál en það verður hvorki leyst (Gripið fram í.) með þessu frumvarpi né gildandi (Gripið fram í.) lögum.

(Forseti (ÁI): Ég bið þingmanninn að hafa hljóð í salnum meðan ræðumaður er í pontu.)

Auðvitað er tillagan flutt fyrir börn og fólk sem eiga gæludýr til að skapa betri skilyrði fyrir þau til þess að eiga þau. Hér er ekki mikið í húfi vegna þess að gæludýr eru þegar flutt til landsins. Hv. þingmanni er það kannski ekki ljóst en fæst þeirra gæludýra sem hér eru eru af séríslenskum stofni eins og á hins vegar við um íslenska hestinn og kúastofninn og landnámshænuna og ýmsan annan búpening. Málið snýr ekki að því hvort flytja eigi þessi gæludýr til landsins eða ekki. Það er verið að flytja þau til landsins allar vikur ársins. Spurningin er hvort eigi að láta eftirlit dýralæknis vera jafngilt þeirri einangrunardvöl sem núna er gerð krafa um.

Ég hvet hv. þingmann til að láta ekki blessuð gæludýrin gjalda Evrópusambandsins eða óbeitar þingmannsins á krötum því að blessuð dýrin eru hvorki stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu né andstæðingar og ekki kratar. Þetta er einfaldlega skynsamlegt fyrirkomulag sem auðveldar fólki að fara á milli landa til náms, til búsetu, til orlofsdvalar og uppfyllir allar þær kröfur um öryggi sem eðlilegt er að gera í þessu efni og þess vegna er ekki nema sjálfsagt að láta það verða að lögum, enda hafa andstæðingar Evrópusambandsins lagt mikla áherslu á að við getum sjálf tekið á því sem ekki er hér eins og þar og bætt íslenska löggjöf. Þá skulum við gera það. (Forseti hringir.) Þá skulum við bæta það í íslenskri löggjöf sem ólíkt er og skapa hér þau góðu lífsskilyrði sem (Forseti hringir.) því fylgir.