150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

tekjuskattur.

34. mál
[00:03]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þetta er á þskj. 1855.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á 1. mgr. 27. gr. laga um tekjuskatt þannig að unnt verði að dreifa skattskyldum söluhagnaði þar sem hluti söluandvirðis er greiddur með skuldaviðurkenningu á allt að 20 árum í stað sjö. Er með frumvarpinu leitast við að auðvelda kynslóðaskipti á fyrirtækjum og bújörðum í rekstri.

Í umsögn sinni bendir Skatturinn m.a. á að heimild til dreifingar á söluhagnaði samkvæmt 27. gr. tekjuskattslaga hafi ekki verið mikið notuð á undanförum árum. Líklegt sé þó að nýting hennar aukist verði heimildin rýmkuð.

Að höfðu samráði við ráðuneytið telur meiri hlutinn rétt að bregðast við athugasemdum Skattsins sem lúta að umfangi frumvarpsins. Leggur meiri hlutinn til breytingu þannig að heimild til að dreifa söluhagnaði á 20 ár nái einungis til hagnaðar af sölu bújarða þar sem stundaður er landbúnaður. Að auki leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökugrein frumvarpsins þannig að frumvarpið öðlist þegar gildi. Með þessu fylgir síðan viðeigandi breytingartillaga.

Frú forseti. Ég vil í þessu sambandi aðeins vekja athygli á því að þegar hv. þm. Haraldur Benediktsson lagði fram þetta frumvarp í annað skipti var meginmarkmið þess í rauninni að auðvelda kynslóðaskipti í atvinnufyrirtækjum en ekki síst á bújörðum. Það er alveg ljóst að kynslóðaskipti í íslenskum landbúnaði hafa oft og tíðum verið erfið. Ég hygg að með framgangi og samþykkt þessa frumvarps, með þeim breytingum sem hafa orðið, þ.e. að hér er eingöngu átt við kynslóðaskipti eða sölu á bújörðum en ekki fyrirtækjum almennt, séu að verða til forsendur fyrir því að auðvelda kynslóðaskipti og halda bújörðum í rekstri, markmið sem ég hygg að allur þingheimur geti sameinast ágætlega um.

Undir nefndarálitið ritar hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu. Undir álitið skrifa hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Willum Þór Þórsson.