154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[11:39]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er um að ræða fjárauka vegna kjarasamninganna; 13 milljarða útgjöld sem var ekki hægt að ræða í fjárlögum fyrir jól, 13 milljarðar sem eru ófjármagnaðir. Ég er ekki viss um að allir hér inni í þessum sal átti sig á hvernig á að fjármagna þessa 13 milljarða. Það á annars vegar að gera með bókhaldsbrellum, sem fjármálaráð hefur gert athugasemd við og fela í sér breytta aðferðafræði á afskriftum skattkrafna sem hefur engin raunverulegt áhrif á aðhald í landinu, og hins vegar þeirri ákvörðun nýsetts og skipaðs hæstv. fjármálaráðherra að sækja 10 milljarða viðbótararðgreiðslur í Landsvirkjun, 10 milljarða sem annars hefðu mögulega farið í fjárfestingu í mikilvægum innviðum eða setið eftir á bókum Landsvirkjunar og verið þar óvirkir. Þannig að annaðhvort er þetta fjármagn sem hefði farið í innviði eða fjármagn sem er núna verið að fleyta inn í hagkerfið og mun valda verðbólgu. Þetta er enn og aftur dæmi um fjármögnun sem stenst enga skoðun og fólk virðist halda að skipti engu máli. Við verðum gul á þessu máli.