154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef lýst því margsinnis yfir í þessum ræðustól að ég styð allar góðar breytingar og allar góðar breytingar í þessu máli mun ég styðja algerlega og ég hef aldrei sagt annað og mun ekki segja annað. Og ef við höldum áfram að tala um Tryggingastofnun og lögin þar: Tryggingastofnun á að fara að lögum, er það ekki, eins og við komumst að hérna? En hvers vegna í ósköpunum eru þá öll þessi mál að fara fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga og hvers vegna í ósköpunum er Tryggingastofnun aftur og aftur að tapa málum? Og hvers vegna í ósköpunum finnst Tryggingastofnun það aftur og aftur í lagi að ráðast á veikt fólk á einhverjum fáránlegum forsendum stundum? Ég hef séð mál sem er svo fáránlegt að hafi verið vísað frá, til að fá örorku, að það þurfti að senda það fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga þar sem hreinlega hefur verið slegið á putta Tryggingastofnunar. Þannig að ég segi bara alveg eins og er að það þarf líka að taka til í Tryggingastofnun og sjá til þess að þeir í Tryggingastofnun fari að lögum. Því eigum við líka að keppa að.

Eins og ég hef alltaf ítrekað: Öll góð mál mun ég styðja en það sem ég get aldrei skilið í þessu öllu saman er hvers vegna í ósköpunum þessi ríkisstjórn getur ekki unnað þessum hópum að fá þessa 23.750 kr. hækkun frá 1. febrúar sl. eins og var gert á almennum vinnumarkaði. Hvers vegna í ósköpunum þurfti að taka 11 milljarða og færa þá til? Af hverju var ekki hægt að nota þessa peninga til að setja þar inn? Þá hefði ég viljað að þeir hefðu gert það skatta- og skerðingarlaust vegna þess að eina leiðin til að þetta fólk fái þetta í vasann er að það renni ekki í gegnum vasa þess og beint í ríkissjóð aftur.