136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:12]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er líka það sem verið er að gera varðandi stjórnlagaþingið. Það er verið að koma því máli inn í stjórnarskrá fram hjá þjóðinni. Þjóðin verður ekki spurð um það hvort hún vilji stjórnlagaþing. Það ætlar Alþingi eitt að ákvarða, burt séð frá því hvað þjóðinni finnst um málið.

Hér hefur verið vitnað til þess að skoðanakönnun sýni 70% stuðning við stjórnlagaþing. Ber þá að skilja það svo að þeir sem standa að þessu máli telji þjóðaratkvæðagreiðslu framvegis um breytingar á stjórnarskránni óþarfar og það sé nóg að fá Gallup til að gera skoðanakönnun? Þannig geta menn ekki afgreitt málið. Menn verða að bera málið undir þjóðina, vita hvort hún vilji gera þessa tilteknu breytingu. (Gripið fram í.) Nei, stjórnlagaþing fer ekki í þjóðaratkvæðagreiðsla, virðulegi þingmaður — (Gripið fram í.) en ástæðan fyrir því, hygg ég, að menn vilji ekki bera undir þjóðina ákvæði 1. gr., um þjóðareign á náttúruauðlindum, er sú að þjóðin mun spyrja: Hvað þýðir þetta? Hún mun spyrja: Þýðir þetta ákvæði 1. gr. frumvarpsins að fiskstofnarnir við Ísland verða þjóðareign? Svarið er að finna á bls. 26 í greinargerð með frumvarpinu og það er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Með því að bæta ákvæði í stjórnarskrá sem lýsir yfir þjóðareign allra auðlinda sem ekki eru háðar einkaeignarrétti yrði hægt að fella undir hugtakið nytjastofna á Íslandsmiðum“ — yrði hægt að fella undir hugtakið nytjastofna á Íslandsmiðum, og svo aðeins síðar: „Væri þannig rétt að laga ákvæði þeirra laga að hinu nýja stjórnarskrárákvæði.“

Með öðrum orðum, verði þessi 1. gr. samþykkt eru fiskstofnar við Ísland ekki sameign þjóðarinnar. Það þarf að setja sérstök lög síðar til þess að svo sé. Það segir þjóðinni þá líka að hægt er að gera önnur lög enn síðar og taka þau út úr þjóðareign.