136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:27]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður eyddi stærstum hluta tíma síns til að sannfæra þingheim og aðra um að hér sé ekki um málþóf að ræða þá vildi ég nefna það — af því að hv. þingmaður vísaði til þess að langar ræður hafi verið fluttar — að hv. þingmaður hefur í ræðum sínum nýtt allan þann ræðutíma sem hv. þingmaður hefur. Hv. þingmaður hefði því ekki getað talað í tíu tíma jafnvel þótt hugur hennar hafi staðið til þess. Þess vegna er ekki hægt að bera saman þau þingsköp sem giltu þegar ræðutíminn var ótakmarkaður miðað við það sem nú er.

Annað sem ég vildi líka nefna er að hv. þingmaður nefndi að búið væri að ræða þetta mál í um 35 tíma. Það er búið að ræða þetta mál í rúmlega 36 tíma, 36 og hálfan tíma. Og á sama tíma hefur fundarstjórn forseta vakið mikla athygli og kallað á miklar umræður. En um þá stjórn hefur verið rætt í sjö og hálfan tíma frá því að umræðan hófst. Þessi umræða hefur því með fundarstjórn forseta — sem ég hef nú reyndar talið ágæta og allir hafa fengið orðið eftir því sem óskað hefur verið eftir, fundarstjórnin hefur verið til fyrirmyndar — tekið 44 tíma og hv. þingmaður eyddi ræðu sinni í að sannfæra þingheim og þjóð um að hér væri ekki um málþóf að ræða. Mér fannst ræðan ekki sannfærandi.