136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[15:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi Sjálfstæðisflokkinn. Stundum tala menn þegar það hentar eins og hann hafi verið einn í ríkisstjórn í 18 ár og gleyma því að það var hæstv. viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar sem stóð ekki vaktina. (Gripið fram í: Einn.) Nei, það voru fleiri. Það var líka formaður Fjármálaeftirlitsins, Jón Sigurðsson samfylkingarmaður. Hann stóð heldur ekki vaktina. Hann er horfinn á bak við skýin og sést ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn var ekki einn í ríkisstjórn þessi 18 ár þó að það henti sumum að tala þannig þegar þeir tala um neikvæðu hlutina. Þegar þeir tala um jákvæðu hlutina, menntakerfið og hvað ríkissjóður hefur verið vel undir það búinn og hvað atvinnulífið er sterkt með álverum og slíku (Gripið fram í.) gleyma menn því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í 18 ár verið einn í ríkisstjórn. (KaJúl: Svaraðu spurningunni.)

Það sem hér er verið að tala um er að það á að bæta hjónum sem eru með 12 millj. kr. í árstekjur, milljón á mánuði. Ég sé enga þörf á því. Við þurfum að fara vel með þessa peninga. Við erum með 2.000 millj. til ráðstöfunar og ég hefði miklu frekar viljað setja þær í atvinnuleysisbætur þar sem hinn raunverulegi kjarnavandi er í þjóðfélaginu. Vandinn er þegar fólk lækkar úr milljón kr. á mánuði niður í 160.000 kr. Þar kristallast vandinn.

Ég vil að menn horfi miklu betur á ráðstöfun þessara peninga. Við höfum mjög litla peninga til ráðstöfunar, frú forseti. Það eru allir sammála um að það þurfi að skera niður í heilbrigðiskerfinu o.s.frv. en á sama tíma (KaJúl: Svaraðu spurningunni.) gusar ríkisstjórnin sem hv. þingmaður styður peningum í tónlistarhús og svo til allra í þjóðfélaginu í staðinn fyrir að fókusera á þá sem eru virkilega í vanda.