136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[15:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið. Það hefur verið mælt fyrir nefndaráliti sem ég skrifaði undir og á aðild að með mikilli ánægju. Hér er um að ræða afskaplega þýðingarmikið mál fyrir fjölskyldur í landinu eins og fram hefur komið í máli þeirra hv. þingmanna sem hafa þegar tekið til máls í umræðunni. Vaxtabótaleiðin er að mínu mati mjög hnitmiðuð og beinskeytt leið til að koma til móts við sérstaklega lágtekjufólk og fólk með miklar skuldbindingar til að endurgreiða hluta af þeim vaxtagjöldum sem það verður fyrir vegna öflunar húsnæðis. Ég tel að sú leið sem hér er farin, að hækka verulega, þ.e. um 30%, hámarksvaxtabæturnar, sé góð í því sambandi.

Vissulega má alltaf deila um það í kerfi eins og þessu hvar viðmiðunarmörkin varðandi stofn til vaxtabóta eða vaxtabæturnar sjálfar eiga nákvæmlega að liggja. Allt getur það verið álitamál og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur haft efasemdir um þessa leið eins og hér hefur komið fram og hann gerði ágætlega grein fyrir þeim á fundum nefndarinnar líka. Ég vek þó athygli á því að hv. þingmaður skrifar undir þetta nefndarálit með fyrirvara sem hann hefur gert grein fyrir þannig að ég á fastlega von á því að hann styðji frumvarpið í sjálfu sér (PHB: Ég sagði það.) þrátt fyrir þann fyrirvara og þrátt fyrir þau hörðu orð sem hann hefur um einstaka þætti hér.

Vegna þeirra ummæla sem féllu hjá honum um að um óþinglega meðferð væri að ræða vegna þess að þetta væri nýtt þingmál vegna þess að nefndin gerir vissulega breytingar á frumvarpinu vil ég segja að í meðförum nefndarinnar kom fram að frumvarpið eins og það var úr garði gert hefði leitt til þess að hópar í vaxtabótakerfinu hefðu orðið fyrir skerðingu. Um afturvirka ráðstöfun er að ræða í þessu frumvarpi og hún er ívilnandi en hún hefði ekki orðið ívilnandi fyrir alla hópa ef frumvarpið hefði orðið óbreytt að lögum. Þess vegna fór nefndin í að skoða aðrar útfærslur á markmiðinu sem er óbreytt. Frumvarpið er að sjálfsögðu ekki nýtt frumvarp. Það hefur nýjar útfærslur til að tryggja að enginn verði fyrir skerðingu en það fer samt þá leið að beina meira fjármagni en frumvarpið gerði upphaflega ráð fyrir til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Ég tel að það hafi tekist. Hér er komið til móts við þau sjónarmið sem komu fram í umsögnum þar sem var talað um ágallana á þessu frumvarpi.

Ég kannast ekki við að þegar menn gera slíkar leiðréttingar í meðförum þingnefndar þurfi að senda það mál aftur þannig til umsagnar. Ég vil ekki taka undir það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði um að þetta væri óþinglegt en ég hef heyrt sjónarmið hans í þessu. Þau komu líka fram á fundi nefndarinnar og ég virði alveg skoðanir hans í því efni en er ósammála honum.

Ég vil líka segja að ég er ekki sáttur við það sem hann segir um að verið sé að gusa út 2 milljörðum til allra landsmanna. Það er auðvitað ekki verið að því. Það veit hv. þingmaður. Það er of djúpt í árinni tekið að segja það. Hér er verið að hækka framlögin til vaxtabóta, sérstaklega til þeirra sem hafa lágar tekjur. Hvar nákvæmlega tekjumörkin eru sem vaxtabæturnar hætta getur eins og ég segi verið umdeilanlegt en í dag fá vaxtabætur þeir hópar sem hv. þingmaður tók dæmi um. Við töldum ekki rétt að lækka á neinum hópum og ákveðnir hópar fá hér viðbætur.

Ég fagna því að þetta frumvarp er komið til 2. umr. og jafnframt að það virðist vera góð samstaða um það í þinginu að hækka vaxtabætur með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég er sannfærður um að þessi ráðstöfun nýtist best þeim sem búa við lægstar tekjur og hafa mikla greiðslubyrði af íbúðalánum sínum.