136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:09]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mikilvægi viðveru flutningsmanna stjórnarskrárfrumvarpsins — og ég er þá að tala um hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra þó að vissulega séu hér hv. varaformaður Framsóknarflokksins — kom glögglega í ljós í andsvörum og orðaskiptum milli hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Jóns Magnússonar. Ég er algjörlega sammála hæstv. fjármálaráðherra um að völdin komi frá þjóðinni, þau koma hvergi annars staðar að. Ég veit ekki til þess og hef ekki orðið vör við að nokkur ágreiningur sé um það í þinginu. Hæstv. fjármálaráðherra benti líka í andsvari sínu réttilega á annmarka á 79. gr. stjórnarskrárinnar að því er það varðar hvernig við stöndum að því að breyta stjórnarskránni. Hann benti á atriði sem ég kom raunar inn á í minni fyrstu ræðu á föstudaginn var, það hvernig við stöndum að stjórnarskrárbreytingum gerir það að verkum að við fjöllum í raun aldrei um stjórnarskrárbreytingarnar í kosningunum. Þess vegna held ég að vitrir stjórnmálamenn sem hafa setið á Alþingi hafi borið gæfu til þess að breyta ekki stjórnarskránni nema í fullkominni samstöðu. Inn á þetta kom ég í minni fyrstu ræðu. Ég sagði að ástæðan fyrir því að menn væru ekkert að fjalla um stjórnarskrárbreytingar í þingkosningum, þegar breytingin er undirliggjandi engu að síður, væri sú órofa hefð í hálfa öld að breyta ekki stjórnarskránni nema í fullkominni samstöðu. Þá er enginn pólitískur ágreiningur um stjórnarskrána og þess vegna er verið að fjalla um hin venjulegu pólitísku dægurmál í kosningunum þar sem stjórnarskráin liggur engu að síður undir. Ég fullyrði, án þess að ég viti það því að ég var hvergi nálægt málum, að árið 2007 hafi verið reynt af hálfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks — Sjálfstæðisflokkurinn var til þess knúinn af samstarfsflokknum á þeim tíma að leggja fram stjórnarskrárbreytingu og ég fullyrði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þá treyst því að stjórnarminnihlutinn, stjórnarandstaðan, mundi mótmæla henni jafnharðlega og hún gerði til að hægt væri að stoppa málið. Ég veit þetta auðvitað ekki en ég fullyrði það einmitt út af þeirri órofa hefð að breyta ekki stjórnarskránni nema í samkomulagi.

Ég er algjörlega sammála því sem hér hefur komið fram, við eigum að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Hafi það ekki komið skýrt fram í þeim ræðum sem ég hef flutt ætla ég að segja það hér þannig að það sé enginn vafi á þeirri skoðun minni. Ég fagna þeirri breytingu sem meiri hluti sérnefndarinnar um stjórnarskrármálefni hefur gert á 2. gr. frumvarpsins en tel að lengra þurfi að ganga. Mér finnst orðalagið sem var í tillögu nefndarinnar frá 2007 hið besta og ekki má ráða af áfangaskýrslu nefndarinnar annað en að þverpólitísk samstaða hafi verið um það. Við eigum bara að fylgja því. Það eru gengin skref í þá átt í þeirri breytingu sem meiri hlutinn í sérnefndinni leggur núna til á sérstöku skjali en ég tel að við eigum að ganga skrefinu lengra.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, í orðræðu við hv. þm. Atla Gíslason um hvað sé passlegur tími til að ræða stjórnarskrána frekar en að ég ætli að leggja mat á það hvort þörf hafi verið fyrir stjórnarandstöðu á hverjum tíma að tala t.d. um Ríkisútvarpið ohf. í 120 klukkutíma eða hvort þjóðin hafi haft nokkurn skilning á því. Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að þjóðin hafi meiri skilning á því að það sé talað í 40 eða 50 klukkutíma um stjórnarskrána og ekki síst breytingar sem verið er að knýja fram í andstöðu við stærsta flokkinn á þingi heldur en að t.d. var einu sinni talað í rúmar 10 klukkustundir í einni og sömu ræðunni um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þótt sjálfsagt sé skilningur þjóðarinnar lítill á því hvernig málþóf og orðræða í þinginu er, og sjálfsagt með réttu, held ég að þjóðin hafi skilning á umræðu um stjórnarskrána. Þjóðin er skynsöm, við skulum ekki gleyma því. Hún hefur líka skilning á því ef verið er að knýja fram breytingu á stjórnarskránni í andstöðu við stærsta þingflokkinn.

Hv. þm. Atli Gíslason sagði réttilega að auðvitað ætti að reyna að leiða allar deilur til lykta. Bæði ég og hv. þingmaður erum lögmenn og við þekkjum það að auðvitað er allt reynt sem hægt er til að sætta mál. Meira að segja er einhvers staðar til setning sem við lögmenn notum oft við umbjóðendur okkar þegar verið er að leita sátta: Það er betri mögur sátt en feitur dómur. Hvað er átt við með því? Jú, það er betra að slá af sínum ýtrustu kröfum, jafnvel þó að maður viti að sú sátt sem þannig fæst sé lakari en dómurinn ef maður ynni málið. Ég segi oft við umbjóðendur mína þegar verið er að ræða sátt að besta sáttin sé sú sem allir eru jafnóánægðir með. Það er nefnilega sátt þar sem allir hafa slegið af sínu. Enginn hefur beitt offorsi eða krafti í skjóli valdsins. Allir slá af sínu.

Við sjálfstæðismenn erum í nokkra daga — það var opnað fyrir þetta þarsíðustu nótt ef ég skildi það rétt — búin að bjóða það að fresta nú 2. umr. og vísa málinu til nefndar. Hv. þm. Atli Gíslason vill ljúka 2. umr. Kannski er bara rétt að hv. þm. Atli Gíslason hugsi: Sá vægir sem vitið hefur meira og nú skulum við fresta 2. umr., fara með málið í nefnd og nota páskana í það. Ég held að út úr því gæti komið prýðileg sátt. Sjálfstæðismenn yrðu ekkert alsælir með hana, stjórnin ekki heldur en það væri sátt og hún yrði nr. 1, 2 og 3 um breytingu á 79. gr. Ég hygg að það séu alveg forsendur fyrir því að skoða 1. gr. frumvarpsins líka. Þegar ég nefni 79. gr. er ég að tala um 2. gr. frumvarpsins. Það má örugglega skoða það líka. Ég segi að vísu persónulega fyrir mig að ég átta mig ekki á því af hverju menn vilja troða ofan í stjórnlagaþingið svona efnislegri breytingu. Ef það gæti orðið einhver sáttahlutur er örugglega í lagi að skoða það.

Eins og þjóðaratkvæðagreiðslan er kynnt í 3. gr. eru á henni ýmsir annmarkar. Það er þó örugglega margt sem réttlætir að setja þjóðaratkvæði inn í stjórnarskrána. Það sem ég hef haft helstar áhyggjur af þar eru ábendingar sem koma frá þeim virta fræðimanni og dómara við Mannréttindadómstólinn, Davíð Þór Björgvinssyni. Hann bendir á að þar sé ýmislegt óljóst. Ég sé að vísu að í meirihlutabreytingunum er búið að taka á ýmsum atriðum en ég tel að það megi alveg skoða líka að hleypa því í gegn og ná sátt um það. Það liggur hins vegar fyrir og ég get fyrir sjálfa mig lýst því hér yfir að stjórnlagaþing öðruvísi en ráðgefandi er nokkuð sem við sjálfstæðismenn eigum ákaflega erfitt með að sætta okkur við og ég hygg að á því muni brjóta. En ég trúi ekki öðru en að þeir lögfræðingar sem hér hafa tekið þátt og jafnvel aðrir geri sér grein fyrir því (Forseti hringir.) stjórnskipulega öngþveiti sem tvö samhliða stjórnlagaþing geta valdið.