138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

svar við fyrirspurn.

[19:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið vegna þess að það eru þrjár vikur síðan ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem honum hefur þó ekki þóknast að svara enn þá. Það var út af máli sem fjallar um að hæstv. ráðherra ætlar að loka dragnótaveiðum á sjö fjörðum án þess að hafa nokkur einustu rök fyrir því að gera það nema þau að leggja niður störf. Það eru þrjár vikur síðan ég lagði fram fyrirspurnina og honum þóknast ekki að svara henni þótt það standi í þingsköpum að hann hafi til þess tíu virka daga. Þetta eru algjörlega óþolandi vinnubrögð. Samt gefur hann út reglugerð í dag um að fara í þessa framkvæmd án þess að virða það viðlits að svara eðlilegum fyrirspurnum hv. þingmanna.

Ég geri alvarlegar athugasemdir við þetta, virðulegur forseti. Það er ekki nóg að menn tali um að breyta því, það verður að gera það því að það er klárlega verið að brjóta hér þingskapalög og ég krefst þess að hæstv. ráðherra verði látinn svara þessu ekki seinna en strax.