138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna bifreiðakaupa.

646. mál
[21:19]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð orð um frumvarpið og stuðning við það. Auðvitað er það nefndarinnar að reyna að finna á því kost og löst og kannski getum við gert eitthvað betur.

Vegna þess að ég náði ekki í fyrra andsvari að ljúka algerlega við það sem varðar hina stjórnskipulegu þætti málsins og álit ríkislögmanns frá því fyrir einu og hálfu ári síðan sem sent var þáverandi viðskiptaráðherra, vildi ég undirstrika að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram mjög ítarlegur lögfræðilegur rökstuðningur fyrir því af hverju þessi aðgerð stenst stjórnarskrána. Það byggir auðvitað á því í fyrsta lagi að fyrir því eru mýmörg dæmi í íslenskri réttarsögu að sett hafi verið hámörk á vexti, verðtryggingu eða endurgjald af kröfum. Það eru líka jafnvel dæmi um að Hæstiréttur hafi talið afturvirkar skattlagningar mögulegar, í stóreignaskattsmálunum á 6. áratugnum þar sem þær voru taldar óumflýjanlegar til að verja fjármálakerfi landsins. Í réttarsögu okkar eru mýmörg dæmi um að stjórnvöld grípi til aðgerða til að draga úr óeðlilegum ávinningi. Ekki þarf að nefna annað en það að við höfðum í löggjöf ríkisákvarðanir um hámarksvexti og bann við okurvöxtum áratugum saman. Það er því löngu athugasemdalaus venja og hefð fyrir því í íslenskum rétti að hægt sé að setja hámark á vexti og afgjald af peningum og þó að eignarrétturinn sé friðhelgur er annað verndarandlag við hliðina sem eru heimilin, friðhelgi og réttur heimila til einkalífs.