139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við í efnahags- og skattanefnd munum að sjálfsögðu taka þennan bandorm til vandlegrar umfjöllunar og sjálfsagt að fara sérstaklega yfir þau atriði sem hæstv. ráðherra nefndi og heldur ekki nema sjálfsagt að nefndin beiti sér fyrir þeim ívilnandi aðgerðum um greiðsludreifingu fyrir atvinnulífið sem hér urðu að lögum í vikunni.

Ég tók ekki nægilega vel eftir þeirri umfjöllun sem hæstv. ráðherra hafði um lífeyrismálin í tengslum við kjarasamningana og vildi inna hann aðeins eftir þeim þáttum sem lutu að kröfum um samræmingu lífeyrisréttinda, hækkunum á inngreiðslum í sjóðina og þá kannski sérstaklega í tengslum við þær fréttir sem sagðar voru í morgun af tilmælum Fjármálaeftirlitsins varðandi Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Eftirlitið telur að í A-deildina skorti 47 milljarða til að standa undir skuldbindingum og að hækka þurfi inngreiðslur um 4% til að mæta því, hvernig sá vandi, og síðan auðvitað hinn meiri og stærri vandinn, sé hugsaður í þessu samhengi, með samræmingu á réttindum, og hvort þennan vanda eigi fyrst og fremst að brúa með því að auka framlög inn í þetta og hver eigi þá að bera þann kostnað, hvort það eru launþegarnir eða skattgreiðandinn.