139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

framkvæmdaátak í vegamálum á árunum 2011--2013.

618. mál
[16:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um að hefja framkvæmdaátak í vegamálum á árunum 2011–2013. Í tillögunni er lagt til að 22 milljörðum verði varið til þessara verkefna. Fyrst og fremst er hugsunin m.a. sú að bregðast við því ástandi sem núna er í því atvinnuleysi sem er hjá þessum verktakaiðnaði. Það er líka, virðulegi forseti, margt sem kemur til viðbótar sem er mikilvægt að fara hér yfir og ég mun gera það seinna í ræðu minni. Eigi að síður þýðir þetta í raun og veru að við ætlum að tvöfalda það sem núna er fyrir í samgönguáætlun. Núna erum við að setja um 7 milljarða á ári í samgönguáætlun og ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt erum við í raun að tvöfalda það.

Það sem hefur gerst í niðurskurði í fjárlögum hjá ríkisstjórninni er að menn hafa hætt við allar framkvæmdir. Menn hafa skorið niður fyrst og fremst framkvæmdaþáttinn og margar þær stofnanir sem hafa þann lið í fjárlögum, hjá þeim er hann skorinn niður en báknið látið sitja eftir.

Það er líka mjög mikilvægt að menn átti sig á því að í þessari grein er mjög mikið af verkþekkingu og mikil hætta er á því að við töpum henni ef við bregðumst ekki við. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðum það til strax árið 2010, þegar niðurskurðurinn var um 4,4 milljarða sem Vegagerðin átti inni í óhafnar framkvæmdir, að Vegagerðinni yrði heimilt að fá að nýta þær til að fara í smærri verk vítt og breitt um landið.

Af því að við ræðum oft í þessum þingsal mikilvægi þess að fjölga ferðamönnum og taka vel á móti þeim til að auka tekjur okkar af ferðaþjónustunni, þá er það því miður þannig í ferðaþjónustunni á mörgum stöðum að varla er hægt að bjóða ferðamönnum upp á það að koma þangað lengur. Eftir að niðurskurðurinn byrjaði árið 2009, 2010 og núna árið 2011, er hægt að segja að Vegagerðin fái nánast ekkert fé til að fara í viðhald á vegum. Það er eins með vegina og margt annað að menn geta trassað það í einhvern ákveðinn tíma en nú er ástandið orðið það slæmt á mörgum vegum þar sem ferðaþjónustan hefur verið að byggja sig upp að varla er hægt að bjóða nokkrum manni að koma þangað. Enda er það reyndin. Maður heyrir af því sögur þegar maður hittir ferðaþjónustuaðila, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum, og staðreyndirnar blasa við, að fólk sem keyrir þangað og ferðast um kemur eftir þær hamfarir þannig að búið er að slíta undan bílunum — við höfum séð það í fréttum — og eyðileggja bílana. Það segir: Hingað kem ég ekki meir og helst aldrei meðan vegirnir eru í þessu ástandi. Það sjá allir hvernig það yrði að byggja upp ferðaþjónustu á því svæði.

Ég fór fyrir ekki svo löngu síðan um uppsveitir Borgarfjarðar, eyddi þar heilum degi og keyrði þar víða og heimsótti ferðaþjónustuaðila sem eru að vinna þar mikið og gott markaðsstarf. En vegakerfið er helsta hindrunin í því. Það þyrfti einmitt í uppsveitum Borgarfjarðar að ráðast í vegakerfið. Það eru ekki mjög dýrar framkvæmdir en það þarf að fara í þær. Ástand veganna er þannig að ekki er hægt að bjóða fólki upp á að keyra þá nema á sérstaklega vel útbúnum bílum.

Ég vil líka minna á að í Norðvesturkjördæmi eru 67% af öllum tengivegum sem á eftir að klára. Í þessu eina kjördæmi eru 67% af því sem er óklárað. Á mörgum þessum vegum er verið að keyra fjölda skólabarna tvisvar á dag og vegirnir eru í niðurníðslu vegna fjárskorts hjá Vegagerðinni. Þetta gengur ekki lengur, virðulegi forseti.

Þó er rétt að benda á að í samgönguáætluninni sem núna er í gildi er heimild til að byggja vegina upp í minni hámarkshraða, þ.e. 70 km hámarkshraða, við gætum framkvæmt heilmikið einmitt á þeim vegum. Það væri því hægt að gera mjög mikið ef menn færu í það að samþykkja tillögu eins og þessa og settu innspýtingu inn í atvinnulífið og hættu að auka álögurnar á atvinnulífið, menn færu frekar að skapa störf og skapa fólki forsendur til þess að sjá fyrir sér og sínum.

Ekki er langt síðan að hér var samþykkt tillaga til þingsályktunar um ferðamannaáætlun 2011–2020. Í einu af fyrstu markmiðunum, og sem er helsta markmið hennar, kemur einmitt fram að stuðla skuli að betri dreifingu ferðamanna um landið. Það er eitt af markmiðum tillögunnar sem hæstv. iðnaðarráðherra mælti fyrir. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvernig ætla menn að framkvæma það, að dreifa ferðamönnunum um landið meðan vegirnir eru ekki lagfærðir? Það segir sig algjörlega sjálft að það mun ekki ganga, fyrir utan allar þær hækkanir sem hafa orðið á bensíni og olíu, eldsneytishækkanirnar, þá mun það blasa einhvern veginn við manni og maður hræðist það mikið að ferðaþjónustuaðilar sem búa kannski fjærst frá höfuðborgarsvæðinu, eða suðvesturhorninu, gætu orðið harkalega úti í sinni ferðaþjónustu í sumar því að fólk mun, held ég, hugsa sig tvisvar um hvort það skreppur í burtu í tvo eða þrjá daga, hvort það fer vestur á firði, austur á land, norður í land, eða bara upp í Borgarfjörð, á Suðurlandið eða Snæfellsnesið, sem eru mun styttri vegalengdir. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt og ég þekki það sjálfur úr mínu heimasveitarfélagi hvað var mikil breyting þegar vegurinn í gegnum þjóðgarðinn eða fyrir jökul, hringurinn í kringum jökulinn, var lagfærður. Ég varð oft vitni að því að fullt af fólki sneri við þegar það kom út á malarvegina. Það er því margt sem fylgir því að skynsamlegt sé að fara út í lagfæringar.

Ekki má heldur gleyma því að þetta er líka öryggisatriði eins og hefur komið fram í ræðum fyrri ræðumanna. Þetta er mikið öryggisatriði og öryggismál. Við megum ekki gleyma því. Við eigum að fara í framkvæmdir sem við byggjum upp til framtíðar, sköpum þeirri grein sem flestallir tala mjög vel um hér í þingsal, og held ég bara allir, þ.e. ferðaþjónustunni, góð skilyrði. Það mundi til að mynda styðja mikið við uppbyggingu ferðaþjónustu á landinu, það er klárlega mín skoðun. Við þekkjum líka hvernig aðstæðurnar eru. Það er fullt af náttúruperlum sem fólk kemst varla að. Sveitarstjórnarmenn hafa margoft sagt það við okkur að það séu fyrst og fremst vegirnir sem oft og tíðum hamli því. Við þekkjum það ofan úr Borgarfirði, t.d. um Uxahryggjarleiðina og aðrar leiðir, að ef þetta yrði gert, sem kostar ekki mikið, væri það algjör ný vídd, þ.e. að tengja saman yfir Suðurlandið, og búið er að vinna mikið í því í þeim hluta í Suðurkjördæminu. Ef sá vegur yrði kláraður og margir aðrir vegir þar sem verið er að byggja upp metnaðarfulla ferðaþjónustu væri það mikil lyftistöng einmitt fyrir svæðið og gæfi okkur miklu meiri möguleika í staðinn fyrir að láta flestalla eða nánast alla fara á mjög fáa staði á suðvesturhorninu. Það er því gríðarlega mikilvægt að menn fari að opna augun og líti á þetta sem heildaráhrif sem mundu verða af framkvæmdum sem þessum.

Fyrst og fremst, virðulegi forseti, yrði það þá með þeim hætti að brugðist yrði við því atvinnuleysi sem er og farið yrði að skapa ný störf. Það eru mjög hagstæð verð að koma núna í tilboðum. Við höfum mörg tækifæri til þess að nýta þau og við eigum að hætta að tala, við þurfum að fara að framkvæma. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þingsályktunartillagan verði samþykkt og við förum í alvöruframkvæmdir sem mundu skila sér til þjóðarbúsins í heild sinni, hvort heldur sem það er fyrir öryggi íbúanna eða fyrir uppbyggingu frekari ferðaþjónustu því að ótvírætt spilar þetta saman á marga vegu.