139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega það. Frjálst flæði gæludýra á milli landa. Hafiði heyrt það betra? Hvers vegna stendur Samfylkingin fyrir því á Alþingi að leggja fram slík frumvörp? Gerir Samfylkingin sér ekki grein fyrir því hvar á jarðarkringlunni Ísland er? Við erum á eyju. Hér kom t.d. upp mjög skæð hestasótt sem enginn veit hvaðan kom, kannski frá smygluðu gæludýri, það skyldi þó ekki hafa verið, og það þurfti að fella niður Landsmót hestamanna og við gátum ekki tekið þátt í mótum erlendis vegna þess. Þessu vill þingmaðurinn fórna vegna þess að það er örlítill kostnaður við að flytja hingað gæludýr. Ef fólk er tilbúið að halda gæludýr og kaupa þann mat sem fyrir það þarf hlýtur það að vera tilbúið til að borga fyrir gæludýrið í einangrunarstöð þegar það kemur til landsins. Hér er mikið í húfi. Hér er um lífsflóru Íslands að ræða. Okkar bestu gæðingar eru lagðir undir þegar farið er með þá á Evrópumót og Heimsmeistaramót í hestaíþróttum og eiga ekki afturkvæmt til landsins. Þingmaðurinn talar ekki um það.

Hér er ekki skilgreining á því hvað orðið gæludýr felur nákvæmlega í sér. Hvaða skilgreining er á því? Ég gæti átt belju fyrir gæludýr. Mætti ég þá fara frjálst með hana á milli Evrópulanda ef ég færi í ferðalag? Þvílíkt og annað eins rugl. Þetta var gert til að geta farið með hunda og ketti yfir landamæri sem tæpast eru sjáanleg í Evrópusambandinu. Það á að innleiða hér. Gæludýr fram yfir börn og fólk. Gæludýr fram yfir heilbrigði landsins.

Ég spyr þingmanninn á ný því að hann svaraði ekki (Forseti hringir.) þeirri spurningu í fyrri umferð: Hvað gerist ef það kemur sýkt gæludýr (Forseti hringir.) hingað á röngum passa sem er frá heilbrigðu dýri? (Forseti hringir.)