150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[21:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við í Miðflokknum munum greiða atkvæði á móti þessu frumvarpi. Viðkomandi ESB-tilskipun, sem hér er verið að lögfesta að hluta, hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn og er endurskoðun á vettvangi EES- og EFTA-ríkjanna og því gætu efnisreglur á þessu sviði enn tekið breytingum.

Það hefur ekki skapast þjóðréttarleg skylda fyrir okkur Íslendinga til að innleiða þessa tilskipun. Ákvæði tilskipunarinnar taka ekki gildi innan ESB fyrr en á þessu ári að hluta til og hluti hennar ekki fyrr en 2023 og 2024. Málaflokkurinn í heild sinni er brotakenndur, þvældur, og þessi lagasetning bætir ekki úr skák. Það vantar heildstæða stefnu í málaflokknum í heild sinni. Ótímabært er að fara í þessar breytingar og hafa fulltrúar atvinnulífs og sveitarstjórna lagt til að lögfestingu á þessari tilskipun yrði frestað. Of víðtæka og opna heimild er einnig að finna í lögunum til ráðherra til að útfæra nánar í reglugerð og okkur finnst það vera of mikið og víðtækt framsal til ráðherra.

Við segjum nei.