150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[21:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Í þessu máli á að taka út það sem hefur verið gert, það að ef komið er með veiðibúnað til landsins þurfi samkvæmt lögum eins og þau hafa verið að sótthreinsa hann í Keflavík eða áður en hann kemur inn í landið.

Miðflokksmenn sem tala svo mikið um sóttvarnir ákváðu að gera ekki athugasemd við þetta við vinnslu málsins í nefndinni þó að það kæmi alveg skýrt fram að nú ættu sóttvarnir að eiga sér stað í ánum sjálfum eða áður en búnaðurinn fer í árnar.

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram út af því að sömu aðilar í nefndinni, hv. þingmenn, vilja réttlæta það í landbúnaðarbandormi að það sé haldið áfram að vera með eyrnamörk, klippa í eyrun á milljón lömbum á ári, af sóttvarnaástæðum en það á að heimila að koma veiðibúnaði alveg heim að ánum í staðinn fyrir að stöðva hann við landamæri. Það er mikilvægt að landsmenn viti af þessum tvískinnungi og misræmi hvað varðar sóttvarnir.