150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[23:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Búið er að flytja góðar og merkar ræður um þetta áhugaverða og mikilvæga mál. Ég þakka fyrsta flutningsmanni fyrir góða framsöguræðu sem mér fannst mjög áhugaverð og vil taka undir það sem þar kom fram. Ræðan var full af næmni, tilfinningum og ábyrgð. Þetta mál snýst nefnilega ekki um það hvort við séum til í veruleika með eða án fíkniefna hér á Íslandi. Þetta er ekki spurning um fíkniefnin sjálf. Við skulum taka það alveg út fyrir sviga. Fólk getur vissulega haft ýmsar skoðanir á því hvort við eigum að lögleiða til að mynda kannabis og haft ákveðnar skoðanir á fíkniefnum og afleiðingum þeirra fyrir einstaklinga og samfélagið sjálft. Við erum ekki akkúrat að ræða það. Hins vegar erum við í þessu frumvarpi að ræða um fólkið sjálft. Frumvarpið snýst um fólkið sjálft, einstaklinga sem upplifa alvarlega jaðarsetningu á eigin skinni sem leiðir til þess að þetta fólk þorir jafnvel ekki að leita sér nauðsynlegrar aðstoðar hér í samfélaginu og kannski eru ekki mjög margar dyr opnar fyrir þá einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda.

Þetta frumvarp snýst nefnilega að mínu mati manneskjur sem sviptar hafa verið allri mannúð hjá kerfinu vegna þess að þær eru veikar fyrir, vegna þess að þær eru með sjúkdóm. Sjálf er ég búin að heyra alls kyns sögur af fólki sem er alvarlega veikt vegna fíkniefna en veigrar sér m.a. við því að hringja á sjúkrabíl vegna óttans sem fylgir því að það komi upp um að það hafi fíkniefni í fórum sínum. Það gæti þá í kjölfarið einnig verið kært fyrir vörslu fíkniefna.

Virðulegur forseti. Með því að viðhalda þessari jaðarsetningu á einstaklingum erum við ekki að horfast í augu við raunveruleikann að mínu mati. Refsikerfið, eins og það er upp sett í dag, hefur ekki virkað fyrir þennan hóp og það er algerlega útséð með það. Með núverandi kerfi höldum við áfram að halda á jaðrinum þessum hópi einstaklinga, manneskjum, hópi fólks, þessum brotnu einstaklingum sem þurfa á aðstoð að halda, þurfa á umönnun að halda, þurfa á því að halda að dyrnar í kerfinu séu opnar en ekki lokaðar.

Fólk leiðist út í neyslu af alls konar ástæðum. Það er heldur ekki til umræðu hér en það er líka mikilvægt málefni að við horfum á rætur vandans og félagslegar aðstæður fólks. Síðustu vikur hefur umræðan um fordóma verið mjög áberandi hér á landi og um heim allan. Þegar við ræðum þetta málefni þurfum við einnig að horfast í augu við eigin fordóma og eigin vanþekkingu á veruleika þeirra einstaklinga sem þetta frumvarp snýst um. Leyfum frumvarpinu að snúast nákvæmlega um þá einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda. Það minnsta sem við getum gert, virðulegur forseti, er að hlusta á raddir þeirra og tryggja að kerfið grípi þetta fólk okkar en útiloki það ekki frekar frá samfélaginu, möguleikum sem við viljum bjóða upp á í samfélaginu og tækifærum sem því fylgja.

Þetta frumvarp samræmist að mínu mati vel nýsamþykktum lögum um neyslurými og það er í raun rökrétt næsta skref. Ég virði þær raddir sem heyrðust hér áðan frá einum stjórnarþingmanni um að það séu einhverjar efasemdir. Ég ætla að virða þær en ég er ósammála þeim af því að við höfum tekið þátt í mikilli umræðu, ekki bara á þessu ári og þessi misserin heldur á síðustu misserum og árum. Skipaðar hafa verið nefndir og skýrslum verið skilað sem svara nákvæmlega þeim spurningum sem m.a. voru settar fram af þingmönnum úr stjórnarmeirihluta. Ég vil líka hrósa nefndinni fyrir að hafa tekið málið og sett fram ákveðnar breytingar. Það þýðir að búið er að leggjast yfir það. Ég veit að farið var yfir niðurstöður nefndar sem skilað hefur sjónarmiðum og niðurstöðum vegna afglæpavæðingar. Það var farið yfir það þannig að við getum á endanum tekið utan um þetta fólk, við getum gripið fólkið sem þarf á aðstoð að halda og ekki refsað því fyrir neyslu fíkniefna.

Þar fyrir utan er þetta frumvarp í samræmi við áherslur Viðreisnar og það er í samræmi stefnu Viðreisnar. Að mínu mati er tími til kominn að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er. Þess vegna er að mínu mati rétti tíminn núna fyrir þingið að samþykkja þetta mál. Þess vegna mun ég styðja málið þegar það kemur til afgreiðslu.