150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

almannatryggingar.

135. mál
[02:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í störfum mínum í fjárlaganefnd, þar sem á hverju ári er lögð til uppfærsla á kjörum lífeyrisþega samkvæmt 69. gr. almannatrygginga, fylgist ég aðeins með því hvernig launaþróun er, hvernig vísitöluþróun á að vera og hvernig uppfærslan samkvæmt 69. gr. er og hefur verið. Ég bað upplýsingaþjónustu Alþingis um að taka saman hvernig þróunin hefur verið, hver vísitalan hefur verið og hver launaþróun hefur verið. Ég bar þetta saman og niðurstaðan er sú að frá því að lögin voru samþykkt hefur kjaragliðnun verið rúmlega 50%. Lífeyrir almannatrygginga ætti samkvæmt 69. gr. að vera rúmlega 50% hærri en hann er ef farið hefði verið eftir lögunum af því að ekki er leiðrétt eftir á samkvæmt raunverulegri vísitöluþróun eða launaþróun. Það er bara unnið eftir spá í upphafi árs, ekki eftir því hvernig þróunin er raunverulega. Þar er vandinn sem þetta á að leysa.