154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Stefna stjórnvalda til næstu fimm ára er ekkert smámál en það er svo margt í þessari fjármálaáætlun sem er einfaldlega gallað. Við fengum umsagnir frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og háskólaráðuneytinu sem sýndu fram á í rauninni gríðarlegan skort á fjárveitingum miðað við þau verkefni sem eru fram undan en við fáum ekki tilraun einu sinni til að fjármagna þau verkefni. Hvort það á að vera vegna aðhalds eða einhvers annars er heldur ekki útskýrt nægilega vel því að það er ekkert aðhald að finna í rauninni í fjármálaáætluninni þannig að við Píratar getum ekki séð annað en að hafna þessari fjármálaáætlun. Hún er einfaldlega ekki vel gerð. Við erum með ýmsar breytingartillögur til þess að sýna fram á nokkrar nauðsynlegar aðgerðir og fjármögnun vegna þeirra, frekar einmitt til að vekja athygli á vanfjármögnun mikilvægra verkefna.