154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

1130. mál
[18:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við fögnum því að hér sé verið að ljúka við enn einn stuðningspakkann, framlengingu á honum. Við Píratar stöndum að sjálfsögðu með Grindvíkingum í þessu og munum að sjálfsögðu greiða atkvæði með þessum pakka. Við teljum að hann sé mikilvægur fyrir Grindvíkinga. Við Píratar bundum hins vegar miklar vonir við að í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar yrði tekið á þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum sem falla milli skips og bryggju þegar kemur að þessum stuðningi. Því miður trúðum við því alveg fram á síðustu stundu að eitthvað yrði gert við þennan stuðningspakka til að bæta kjör þeirra og komum þar af leiðandi ekki með okkar eigin tillögur þess efnis. Við bindum samt miklar vonir við að þetta mikla ákall sem hefur heyrst frá stjórnarandstöðu og Grindvíkingum um að eitthvað verði gert fyrir þá sem falla á milli skips og bryggju, að á það verði hlustað og að það verði eitt af fyrstu verkefnum okkar í haust að tryggja að allir Grindvíkingar sitji við sama borð.