136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Við höldum áfram mjög mikilvægri umræðu um breytingar á stjórnarskránni, breytingar sem hafa orðið töluverðar á síðustu árum. Eins og við höfum áður rifjað upp var stjórnarskránni m.a. breytt 1991, 1995 og 1999 og þá alltaf í sátt og miklu samkomulagi á milli stjórnmálaflokkanna af því að þá gerðu menn sem voru í forustu í ríkisstjórn sér grein fyrir því að stjórnarskráin væri mikilvægari en pólitískir stundarhagsmunir, það þyrfti að fara fram vönduð umræða, samkomulag að nást á þingi og ekki síður þyrfti að ná víðtækri umræðu í samfélaginu. Mér er þá minnisstæð umræðan sem var mikil í samfélaginu um breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar árið 1995 þar sem m.a. Geir Haarde var í forsvari fyrir breytingunum á þingi. Forsvarsmenn gerðu sér far um að fá fram sem flestar skoðanir, fá að heyra í sem flestum til að ná samkomulagi um grundvallarbreytingar á grundvallarskjali okkar sem er stjórnarskráin.

Af hverju er ég að rifja þetta upp núna? Það er m.a. út af því að ég hlustaði á eldhúsdagsumræður í síðustu viku. Þegar ég hlusta á hæstv. forsætisráðherra tala er eins og það dugi ekki fyrir okkur sjálfstæðismenn að ræða málið á þingi því að á okkur hefur lítið verið hlustað miðað við þann málflutning sem fyrst og síðast 1. flutningsmaður frumvarpsins, stjórnarskrárbreytingarinnar, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, hefur sett fram. Það er einkennandi, og mér finnst rétt að það verði dregið aftur fram, líka í ljósi þess sem hefur m.a. birst í auglýsingum hjá Samfylkingunni, að hún segir þar: Við látum verkin tala. Það er yfirskrift Samfylkingarinnar í þessari kosningabaráttu. Er hægt að skrumskæla hlutina meira?

Ég ætla ekki að fara strax í það sem stendur í öfugmælavísu þessarar auglýsingar þar sem fullyrt er um ákveðna hluti sem ekki eru komnir í framkvæmd. Það er hakað við ýmsa þætti sem ekki er einu sinni búið að klára, kjósendur blekktir, lesendur blekktir. Ég get nefnt að það stendur að verðmati nýju bankanna sé lokið. Því er engan veginn lokið en því er haldið fram í auglýsingum. Og þau segja: Látum verkin tala.

Mikið hefur verið rætt um vinnubrögð í gegnum tíðina í samfélaginu og vinnubrögðin mega svo sannarlega verða betri, skilvirkari og gegnsærri. Ég tek undir það allt saman. Við þurfum að koma hreint fram, ganga hreint til verks og segja frá hlutunum eins og þeir eru þó að það kunni að valda stjórnmálaflokkum, hvort sem er Sjálfstæðisflokkur, Samfylking eða aðrir stjórnmálaflokkar, ákveðnum sársauka. Það verður að segja hlutina eins og þeir eru.

Hvernig eru þá hlutirnir þegar kemur að breytingum á stjórnarskránni? Ég gat um það að margt hefur verið gagnrýnt og margt verið sagt um okkar 18 ára stjórnarsetu í ríkisstjórn. Það er rétt að minnast þess að á þessum 18 árum hefur þjóðin alltaf fengið að tala, hún hefur alltaf tjáð vilja sinn og viljinn hefur verið sá að á öllum þessum árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf fengið endurnýjað umboð. Gott og vel, Sjálfstæðisflokkurinn var líka í forustu fyrir þeirri ríkisstjórn sem breytti og gerði sér far um að breyta stjórnarskránni í samkomulagi við aðra flokka.

Hvað gerist þegar flokkur og talsmaður nýrra vinnubragða nær forustu í ríkisstjórn? Þá koma svo sannarlega ný vinnubrögð til skjalanna því að í fyrsta sinn í hálfa öld er ekki bara verið að traðka á þinginu heldur er verið að troða í gegn breytingum sem sómakærir lögmenn, bæði í þessum sal og úti í bæ, hafa mótmælt kröftuglega og sagt að tíminn væri allt of skammur og þetta væru heldur ekki rétt vinnubrögð, það væri verið að breyta stjórnarskránni okkar, grundvallarplagginu, í pólitískt átakaskjal. Þess vegna eru hagsmunirnir svo ríkir að við megum ekki hugsa skammt eins og Samfylkingin gerir, Vinstri grænir og eins Framsóknarflokkurinn. Við megum ekki nota þá umbrotatíma sem við erum á í íslensku samfélagi til að breyta stjórnarskránni í skjóli og ljósi pólitískra hagsmuna.

Ég hef farið yfir það að pólitísku hagsmunirnir eru þeir að Framsóknarflokkurinn þarf að fá sína dúsu, stjórnlagaþingið. Síðan þurfa Vinstri grænir að fá sitt, Samfylkingin þarf að fá auðlindaákvæðið og síðan er gott að láta breytingarnar á 79. gr. stjórnarskrárinnar fljóta með. Gott og vel, við erum búin að fara í gegnum þetta en þetta er einkennandi varðandi aðkomuna að öllu þessu máli sem er í rauninni hneykslanlegt. Það er hneykslanlegt hvernig stjórnmálaflokkar með sómakært fólk innan borðs hafa farið í þann leiðangur að breyta grundvallarplaggi okkar á þessum umbrotatímum. Það er nefnilega verið að misnota ástandið í samfélaginu, flokkarnir eru að fela sig á bak við það erfiða ástand sem er í samfélaginu, ástand sem við munum komast fljótt út úr ef rétt er á málum haldið og erfiðar ákvarðanir verða teknar. Við fáum reyndar ekki að ræða þær ákvarðanir í þingsal af því að ríkisstjórnin vill ekki ræða hvar hún ætlar að bera niður í ríkisfjármálum, hún vill ekki tala um það af hverju gengið lækkar, af hverju krónan fellur og ríkisstjórnin vill ekki ræða af hverju atvinnulausum hefur fjölgað um 8.000 manns síðan hin nýja ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum. Þetta átti að vera ríkisstjórnin sem lætur verkin tala, hún lætur verkin tala á dapurlegan hátt þegar kemur að stjórnarskránni.

Mig langar að vitna í ýmsa fræðimenn. Fyrst langar mig að vitna í Skúla Magnússon sem er hjá EFTA-dómstólnum. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Eitt af því sem nú er teflt fram sem viðbrögðum við efnahagslegu áfalli landsins er flýtimeðferð til ákveðinnar breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins en að því loknu einhvers konar allsherjarendurskoðun stjórnskipunarinnar á vettvangi stjórnlagaþings. Í þessu sambandi hefur í almennri umræðu verið vísað til hugsanlegs afnáms þingræðisreglunnar, fyrirmynda í bandarískri stjórnskipun eða hugmynda Vilmundar Gylfasonar heitins af ótrúlegri léttúð, þar á meðal af lögfræðingum.

Þótt hugmyndin um stjórnlagaþing kunni að hljóma aðlaðandi, sefa reiði almennings með því að svara kalli um róttækar og umsvifalausar breytingar, eru hér miklir hagsmunir lagðir að veði. Við Íslendingar eigum nefnilega stjórnskipun sem í öllum meginatriðum er skýr, jafnvel þótt texti stjórnarskrárinnar sjálfrar kunni í sumum tilvikum að vera gamall og lítt aðgengilegur. Þessi eign er ekki eins sjálfsögð og margir kunna að ætla. Einmitt við núverandi aðstæður ætti mönnum þó að vera ljóst gildi þess að eiga stjórnskipun sem er skýr um skipan valdsins, valdmörk, ákvarðanatöku, o.s.frv., þannig að unnt sé að veita samfélaginu ábyrga og skynsama stjórn með langtímahagsmuni að leiðarljósi.

Það er engin góð ástæða til að rífa stjórnskipun Íslands upp með rótum við núverandi aðstæður þar sem stjórnvöld þurfa að setja sér skýr markmið til lengri og skemmri tíma — sum eflaust sársaukafull og misvinsæl — og hafa styrk og þol til þess að vinna að þeim. Við munum ekki leysa aðsteðjandi vandamál með breytingum á stjórnskipun Íslands. Saga stjórnarskráa bendir raunar til þess að endingartími og tilætluð samfélagsleg áhrif þeirra aukist í öfugu hlutfalli við lengd þeirra og lagatæknilega fágun.“

Þetta finnst mér það dapurlega við allan málflutning stjórnarmeirihlutans og þá á ég við framsóknarmenn, Samfylkinguna og Vinstri græna, þ.e. hvernig þeir hafa notað stjórnarskrána til að telja fólki trú um að með þessum breytingum muni allt verða betra í samfélaginu. Það er ekki þannig, við leysum ekki bráðavanda námsmanna með því að fara í breytingar á stjórnarskránni, við leysum ekki bráðavanda heimilanna eða fyrirtækjanna, herra forseti.

Þess vegna er dapurlegt að sjá pólitíska stundarhagsmuni setta í forgang þegar kemur að stjórnarskránni og það er þetta sem við sjálfstæðismenn höfum mótmælt, þegar kemur að grundvallarplaggi okkar viljum við að menn umgangist stjórnarskrána af virðingu. Við viljum sjá breytingar á stjórnarskránni. Það er rangt sem hefur komið fram, m.a. í máli hæstv. forsætisráðherra, ekkert annað en útúrsnúningar þegar sagt er að við sjálfstæðismenn viljum ekki breytingar á stjórnarskránni. Það hentar bara ágætlega að nota stjórnarskrána sem ákveðið tæki til að traðka á okkur sjálfstæðismönnum. Við sjálfstæðismenn kveinkum okkur ekki undan því en það skal ekki takast að nota stjórnarskrána til að viðhalda valdi til þess að beita henni í þágu pólitískra stundarhagsmuna.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu í bili en það er margt sem ég á eftir að fara yfir og ýmis atriði á ég órædd. Þegar kemur að stjórnarskránni er alveg ljóst að þingið þarf að bera mikla virðingu gagnvart stjórnarskránni, þessu mikilvæga plaggi. Við viljum sjá breytingar en við viljum sjá þær gerðar í sátt þannig að stjórnarskráin verði ekki átakaskjal til lengri tíma.