136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[18:51]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega sammála hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvað þetta varðar að þau sérstöku ákvæði sem giltu um sérstakan saksóknara voru þess eðlis að það á ekki að vera fordæmi að öðru leyti. Eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á eru ákveðin sólarlagsákvæði hvað þetta varðar. Það verður að taka það sérstaklega fram að þegar við setjum lög við sérstakar aðstæður eins og við gerum óneitanlega í kjölfar efnahagshrunsins sem varð í október verður að gæta að því að víkja ekki frá þeim meginreglum og sjónarmiðum sem gilda almennt og þá sérstaklega hvað varðar refsilög. Hér er um mjög viðkvæman málaflokk að ræða og það skiptir máli að ekki sé farið algerlega á svig við þær meginreglur sem gilda almennt hvað varðar meðferð opinberra mála og sjónarmið sem koma fram í almennum hegningarlögum. Eins og ég gat um í ræðu minni áðan eru mjög víðtækar heimildir í almennum hegningarlögum um að meta refsilækkunarástæður í mörgum liðum og þau atriði sem koma fram í þessu frumvarpi mundu í öllum tilvikum koma til greina sem refsilækkunarákvæði.

Það er líka heimild fyrir því að færa refsingu niður fyrir ákveðin lögmælt lágmörk ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi og mundu í flestum tilvikum vera fyrir hendi þegar um brot er að ræða sem kveðið er á um í heimildarákvæðunum handa Fjármálaeftirliti til að falla frá sektargreiðslum. Þess vegna sagði ég áðan, virðulegi forseti, að ég sæi ekki að það yrði neinn héraðsbrestur þó að þetta yrði ekki að lögum á þessu þingi.