136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[21:33]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir sem hafa rætt þetta mál hér í pontu lýsa því yfir að ég er frekar hissa á því að við skulum taka þetta mál fram yfir mörg önnur vegna þess að mér finnst engan veginn liggja á því á sama hátt og mér finnst liggja á mörgum öðrum málum. Engu að síður ræðum við nú frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn. Frumvarpið inniheldur 16 greinar og er svokallaður bandormur, þ.e. það nær til breytinga á átta mismunandi lögum er varða fjármálamarkaðinn. Þessi lög eru í fyrsta lagi lög frá 2002 um fjármálafyrirtæki, í öðru lagi lög frá 2007 um verðbréfaviðskipti, í þriðja lagi lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, í fjórða lagi lög um vátryggingastarfsemi, í fimmta lagi lög um miðlun vátrygginga, í sjötta lagi lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, í sjöunda lagi lög um kauphallir og í áttunda lagi er um að ræða lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Sem sagt, 16 greinar og breytingar á átta mismunandi lögum.

Frumvarpið er í átta köflum og er hver þeirra tvær greinar. Fyrri greinin er í tengslum við hver af þeim lögum sem á að breyta, þ.e. alla vega sjö þeirra, og fjallar um heimild til Fjármálaeftirlitsins til að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun eða lækka stjórnvaldssektir, og seinni greinin í viðkomandi köflum fjallar um heimild til Fjármálaeftirlitsins til að kæra brot ekki til lögreglu að uppfylltum ákveðnum ákvæðum. Svona rekur frumvarpið sig og það sem er sérstakt við afgreiðslu nefndarinnar er að viðskiptanefnd leggur til að nánast önnur hver grein falli niður, þ.e. seinni greinin í sjö kaflanna og fyrri grein VIII. kafla, þ.e. að átta greinar falli niður. Þetta er sérstakt eins og áður hefur verið rakið af hv. þm. Árna Mathiesen.

Frumvarpið snýst um niðurfellingu, þ.e. mildun eða brottfellingu viðurlaga þegar einstaklingur eða lögaðili játar brot gegn lögum og vinnur með eftirlitsaðila að því að rannsaka mál. Einnig er með frumvarpinu lagt til að vísað verði til þess í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi að Fjármálaeftirlitið hafi heimildir samkvæmt sérlögum til að kæra mál ekki til lögreglu hafi eftirlitið ákveðið að veita niðurfellingu í samræmi við ákvæði viðkomandi laga.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, sem er formaður viðskiptanefndar, voru nefndarmenn almennt því fylgjandi að heimila Fjármálaeftirlitinu að falla frá eða minnka sektarákvörðun. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ef einstaklingur eða lögaðili er fyrstur til að koma fram með upplýsingar eða gögn sem að mati eftirlitsins geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti þá gildi þetta ákvæði. Einstaklingar eða lögaðilar eiga því möguleika á að fá niðurfellingu hvort sem rannsókn á broti þeirra er hafin eða ekki ef þeir sjálfviljugir og að fyrra bragði ákveða að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn. Almenn samvinna einstaklings eða lögaðila vegna rannsóknareftirlitsins dugar ekki til að fá niðurfellingu.

Nefndarmenn og gestir voru ekki hlynntir því ákvæði í frumvarpinu að Fjármálaeftirlitið geti ákveðið að kæra brot ekki til lögreglu hafi fyrirtæki eða einstaklingur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn telji hún að gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg t viðbót við þau gögn sem hún hefur þegar í fórum sínum.

Eins og fram kemur í nefndaráliti viðskiptanefndar sem allir viðstaddir nefndarmenn skrifuðu undir þann 24. mars sl. var eftir umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið ljóst að svo umfangsmiklar breytingar sem mælt er fyrir um í nær öllum greinum þess sem merktar eru jöfnum tölum, þ.e. 2, 4, 6, 8, 10, 12, 14, og grein nr. 15, og felast í því að eftirlitsstofnun geti ákveðið að kæra ekki tiltekin brot til lögreglu eru í besta falli mjög umdeilanlegar. Með lögfestingu þeirra yrði úrslitavald um það hvort brot á fjármálamarkaði yrðu rannsökuð af lögreglu og sættu eftir atvikum ákærumeðferð af hálfu ákæruvalds fært í hendur eftirlitsstofnunar og þar með fengi Fjármálaeftirlitið mjög óvenjulegt hlutverk sem reyndar er ekki þekkt neins staðar annars staðar í samanburðarlöndum og ekki í neinum þeim löndum sem nefndinni er kunnugt um. Nefndin bendir á að brot sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins kunna að vera alvarleg og gætu einnig varðað við ákvæði annarra laga svo sem almennra hegningarlaga eða ákvæði annarra sérrefsilaga.

Í samkeppnislögum er svipað ákvæði og felst í nokkrum greinum frumvarpsins, þ.e. þeim sem eru með sléttum tölum frumvarpsins, m.a. í 2. gr. um heimild til að kæra ekki brot til lögreglu. Sá munur er á úrræðum þessara tveggja stofnana hvað viðurlög varðar að í samkeppnisrétti er gerður meiri greinarmunur á einstaklingum og fyrirtækjum. Samkeppniseftirlitinu ber að kæra brot einstaklinga til lögreglu en brot fyrirtækja varða aðeins stjórnvaldssektum. Hvað fjármálamarkaðinn varðar er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitinu beri að kæra meiri háttar brot til lögreglu óháð því hvort um er að ræða brot einstaklings eða fyrirtækis. Yrði frumvarpið að lögum mundi verða lögfest frávik frá því að meiri háttar brot gegn lögum á fjármálamarkaði sæti kæru til lögreglu og mun það bæði ná til einstaklinga og fyrirtækja ef frumvarpið yrði að lögum óbreytt. Nefndin var á því að brot gegn samkeppnislögum séu eðlisólík brotum á fjármálamarkaði að því leyti að þau eru til þess fallin að hafa í för með sér efnahagslegan skaða fyrir bæði neytendur og atvinnulíf.

Eins og áður sagði finnast ekki fordæmi erlendis frá fyrir niðurfellingarreglum vegna brota á fjármálamarkaði. Nefndin telur að þrátt fyrir að einhver brot kunni að upplýsast, verði mælt fyrir um niðurfellingu í lögum, séu þessi ákvæði afar varhugaverð og ítrekar nefndin að um alvarlegt brot getur verið að ræða. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin til að fyrrgreindar greinar nr. 2, 4, 6, 8, 10, 12, 14 og 15 falli brott, nánast helmingur af frumvarpinu falli brott. En nefndin telur eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi þær heimildir sem aðrar greinar frumvarpsins mæla fyrir um þannig að heimilt verði að lækka eða fella brott sektarákvarðanir. Verði frumvarpið að lögum verður eftirlitinu því heimilt að lækka eða falla frá þessum stjórnvaldssektum. Úrræði af þessu tagi geta leitt til þess að mál verði upplýst án þess að vikið sé frá meginreglum um meðferð ákæruvalds.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram á bls. 5, með leyfi forseta:

„Reglum sem þessum hefur hingað til verið beitt með góðum árangri á sviði samkeppnisréttar“ — er þá átt við að fella niður eða lækka stjórnvaldssektir eða vísa kærum ekki til lögreglu — „og þær verið taldar mjög mikilvægar í því skyni að upplýsa um ólögmætt samráð. Niðurfellingarreglur í samkeppnisrétti voru fyrst settar í Bandaríkjunum árið 1978, Evrópusambandið tók upp slíkar reglur árið 1993 og í kjölfarið hafa fjölmörg ríki tekið upp slíkar reglur í samkeppnislöggjöf sína, m.a. Ísland. Þá er í lögum nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara, að finna ákvæði um niðurfellingu við tilteknar aðstæður en niðurfellingarákvæði samkeppnislaga og laga um sérstakan saksóknara eru reifuð hér að aftan.“

Með leyfi forseta held ég aðeins áfram:

„Hvað varðar niðurfellingarreglur á fjármálamarkaði hafa ekki fundist nein fordæmi fyrir slíkum reglum erlendis.“

Þetta kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið að það er ekki nein hliðstæða annars staðar frá, enda mælir viðskiptanefnd með að frumvarpið verði samþykkt með því að fella brott áðurnefndar greinar og þar með er ekki vilji til að ganga eins langt og frumvarpið gerir ráð fyrir. Reyndar var mikil samstaða meðal allra viðskiptanefndarmanna og reyndar allra gesta, utan eins, sem tóku undir það að ekki væri eðlilegt að ganga svo langt sem greinar 2, 4, 6, 8, 10, 12, 14 og 15 kveða á um.

Ekki var vilji til þess að veita Fjármálaeftirlitinu þá heimild að ákveða að kæra ekki brot til lögreglu hafi fyrirtæki eða einstaklingar haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn sem nánar er kveðið á um í frumvarpinu.

Ég hef lokið máli mínu en ítreka það að ég styð frumvarpið með breytingunum en lýsi því jafnframt yfir að ég er hissa á því að hæstv. forseti skuli láta þetta mál ganga fram fyrir mörg önnur þau mál sem við teljum að mundu aðstoða okkar viðskiptalíf og heimili í landinu. Það er nefnilega mikilvægt að forgangsraða á þessum tímum sem eru síðustu dagar núverandi og yfirstandandi þings.