136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:11]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson talaði um hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem meistara andsvaranna. Ekki veit ég með hvaða hætti hann öðlaðist þá meistaratign, hitt er annað mál að vel kann að vera að hann sé vel að henni kominn.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að ræða mín hefði valdið sér vonbrigðum og mér þykir það leitt. Mér þykir leitt að valda jafnmætum þingmanni og hv. þm. Lúðvíki Bergvinsson er vonbrigðum. Þá ræddi hann um og kom með sérstaka skýringu á orðum formanns þingflokks Framsóknarflokksins og ég tel það nokkurt nýmæli að orð formanns þingflokks Framsóknarflokksins þurfi sérstaka túlkun formanns þingflokks Samfylkingarinnar sem er kannski dæmi um það hvernig hlutir og hlutverkaskipun í stjórnmálum tekur sífelldum breytingum á þeim óvenjulegu tímum sem við lifum. Ég ætla ekki að hafa afskipti af því en það sem kom í fréttum var ekkert annað en það að skilja mátti að fallið væri frá hugmyndum um stjórnlagaþing.

Ef þetta átti að vera leið til sátta af hálfu formanns þingflokks Framsóknarflokksins finnst mér eðlilegt að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem formaður sérnefndar um stjórnarskrármál fari hreinlega fram á það að umræðu um málið verði frestað, málið verði tekið aftur inn í nefndina til að athuga hvort það geti verið flötur á því að ná samkomulagi í nefndinni. Ég endurtek að við sjálfstæðismenn höfum ítrekað rétt fram sáttarhönd í málinu án þess að í hana væri tekið eða nokkur tilraun gerð til þess. Og þá er kannski spurning um það, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, hvort ekki sé ástæða til þess að athuga málið (Forseti hringir.) og hv. þingmaður gæti skráð nafn sitt á spjöld sögunnar sem hinn mikli sáttasemjari í sölum Alþingis.